Fótbolti

Sigurður Egill skaut Valsmönnum í úrslitaleikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurður Egill Lárusson var hetja Valsmanna í kvöld.
Sigurður Egill Lárusson var hetja Valsmanna í kvöld. vísir/stefán
Valur er kominn í úrslit Reykjavíkurmótsins í fótbolta eftir 1-0 sigur á Fjölni í fyrri undanúrslitaleiknum í Egilshöllinni í kvöld.

Eina mark leiksins skoraði Sigurður Egill Lárusson á 33. mínútu. Hann fékk þá snyrtilega sendingu inn fyrir vörnina frá Hauki Ásberg Hilmarssyni, lék auðveldlega á Steinar Örn Gunnarsson í markinu og kom boltanum í netið.

Skömmu síðar var Sigurður Egill aftur kominn í dauðafæri upp við mark Fjölnis en þá sá Steinar við honum.

Fjölnismenn voru meira með boltann í seinni hálfleik og voru óheppnir að jafna ekki metin snemma í seinni hálfleiknum þegar Þórður Steinar Hreiðarsson varði skot Ægis Jarls Jónssonar á línu.

Hinum megin voru Valsmenn svo hársbreidd frá því að tvöfalda forskotið en þá varði Guðmundur Þór Júlíusson skalla Hlíðarendapilta úr teignum á línu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og spilar Valur til úrslita á mánudagskvöldið en Fjölnir, sem vann alla þrjá leiki sína í riðlinum, er úr leik.

Valur mætir annaðhvort Leikni eða KR í úrslitum, en þau mætast klukkan 20.35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×