Björgunarsveitir hafa komið þeim ökumönnum sem sátu fastir á Hellisheiði fyrr í kvöld í skjól. Þó urðu einhver ökutæki eftir á heiðinni. Áfram verður lokað á heiðinni, í Þrengslum, á Sandskeið og á Mosfellsheiði í nótt vegna veðurs.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar kemur einnig fram að hálka og skafrenningur er á Suðurstrandavegi, og blint í hríðum, og þungfært um Krísuvíkurleið. Hún er nú einungis fær breyttum jeppabifreiðum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja eða hálka á vegum á Vesturlandi. Þæfingsfærð og stórhríð er á Holtavörðuheiði en snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku.
Hálka og snjóþekja er á Vestfjörðum. Vegir eru víðast hvar auðir um austanvert landið og víða er greiðfært á Norðurlandi. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Bílar sitja enn fastir á heiðinni en ökumönnum komið í skjól

Tengdar fréttir

Búið að loka Hellisheiði og víðar
Ekkert skyggni segir lögreglan á Suðurlandi.