Körfubolti

Westbrook skoraði 41 stig í Stjörnuleiknum | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook treður hér í körfuna.
Russell Westbrook treður hér í körfuna. Vísir/Getty
Russell Westbrook var maður kvöldsins í Madison Square Garden í nótt þegar hann leiddi Vesturdeildina til sigurs í Stjörnuleik NBA-deildarinnar í körfubolta.

Vestrið vann Austrið 163-158 þar sem Russell Westbrook skoraði 41 stig og var aðeins einu stigi frá því að jafna stigamet Wilt Chamberlain frá 1962. Westbrook var að sjálfsögðu valinn besti leikmaður leiksins.

„Ég klikkaði á sex eða sjö sniðskotum og átti að geta tekið metið," sagði Russell Westbrook léttur í leikslok.

Westbrook var jafnframt aðeins þriðji maðurinn sem kemst í 40 stigin í Stjörnuleik en auk Wilt Chamberlain þá skoraði Michael Jordan 40 stig árið 1988. „Það er mikill heiður að vera í hópi með þessum tveimur," sagði Russell Westbrook eftir leikinn.

Westbrook skoraði 27 stig í fyrri hálfleiknum og hjálpaði Vestrinu að ná tuttugu stiga forystu í leiknum. Westbrook hitti úr 16 af 28 skotum sínum þar af 5 af 9 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Það voru fleiri kappar að spila vel því James Harden var með 29 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. LaMarcus Aldridge skoraði 18 stig og Stephen Curry var með 15 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Chris Paul var með 12 stig og 15 stoðsendingar.

LeBron James var með 30 stig og 7 stoðsendingar fyrir Austurdeildina og Kyle Korver setti niður sjö þriggja stiga skot og endaði með 21 stig. John Wall skoraði 19 stig.

Bræðurnir Marc Gasol og Pau Gasol skrifuðu kafla í sögu Stjörnuleiksins með því að vera báðir í byrjunarliðinu. Marc endaði með 6 stig og 10 fráköst á 25 mínútum en Pau var með 10 stig og 12 fráköst á 26 mínútum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×