Fótbolti

Hólmfríður: Hef sjaldan verið í betra standi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik gegn Japan á Algarve.
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik gegn Japan á Algarve. vísir/getty
Tímabilið í úrvalsdeild kvenna í Noregi hefst um helgina og byrjar Íslendingaliðið Avaldsnes á heimaleik gegn Arna-Björnar.

Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er lykilmaður í liði Avaldsnes, en hún hefur spilað 76 leiki og skorað í þeim 51 mark.

„Ég hef sjaldan verið í betra formi fyrir tímabil. Ég er í góðu standi, sterk andlega og hef sjaldan notið mín svona á undirbúningstímabilinu,“ segir Hólmfríður í viðtali við karmoynytt.no.

Landsliðskonan nýtur lífsins í Karmöy og hefur ekkert nema góða hluti að segja um yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu, Arne Utvik.

„Ég get bara sagt góða hluti um fyrstu fjögur árin mín hérna. Ég elska Karmöy. Fólkið hérna er orðin ný fjölskylda fyrir mér,“ segir Hólmfríður.

„Fyrst og fremst verð ég að tala um Arne Utvik og það sem hann hefur gert fyrir mig, félagið og norskan kvennafótbolta. Undir hans stjórn er umhverfið í kringum liðið mun betra og hann hefur skilað mikilli vinnu og sett pening í félagið. Hann mætir á æfingar, sækir boltana og sinnir allskonar störfum fyrir félagið.“

Utvik fékk Tom Nordlie, frægan þjálfara í Noregi sem hefur þjálfað karlalið á borð við Lilleström, Start, Vålerenga, Odd, Viking og nú síðast Íslendingaliðið Sandnes.

„Við erum með marga nýja leikmenn í hópnum og þeir eru spennandi. Liðið er búið að æfa vel undir stjórn Tom Nordli sem er mjög góður þjálfari með marga styrkleika. Hann hefur skýra stefnu og er mjög virkur á æfingum,“ segir Hólmfríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×