Körfubolti

39 ára bið Golden State á enda | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre Iguodala átti góðan leik í nótt.
Andre Iguodala átti góðan leik í nótt. Vísir/AP
Golden State Warriors tryggði sér í nótt sigur í Kyrrahafsriðlinum í fyrsta sinn síðan 1976 er liðið hafði betur gegn Portland á útivelli, 122-108.

Golden State er með bestan árangur allra liða í NBA-delidinni en liðið hefur unnið 58 leiki í vetur og er með væna forystu á næsta lið í riðlinum, LA Clippers, sem hefur unnið 46.

Steph Curry var með 33 stig og tíu stoðsendingar í leiknum í nótt og Andre Iguodala kom af bekknum og skoraði 21 stig. Þetta var sjöundi sigur liðsins í röð.

Portland er í fjórða sæti vesturdeildarinnar en hefur nú tapað fimm leikjum í röð.

Oklahoma City styrkti stöðu sína í áttunda sæti vesturdeildarinnar með sigri á LA Lakers, 127-117. Russel Westbrook, stigahæsti maður deildarinnar, skoraði 27 stig og bætti við ellefu stoðsendingum. Enes Kanter var með 25 stig og sextán fráköst.

Dallas vann San Antonio, 101-94, og minnkaði þar með bilið á milli liðanna í sjötta og sjöunda sæti vesturdeildarinnar. Monta Ellis skoraði 38 stig fyrir Dallas.

Þá vann Milwaukee sigur á Miami, 89-88, í baráttunni um sjötta sæti austurdeildarinnar. Milwaukee er nú með 35 sigra en Miami enn með 32.

Khris Middleton tryggði Milwaukee sigurinn með þriggja stiga flautukörfu en lið hans var búið að tapa fimm leikjum í röð fyrir leikinn í nótt.

Úrslit næturinnar:

Detroit - Toronto 108-104

Milwaukee - Miami 89-88

Oklahoma City - LA Lakers 127-117

Dallas - San Antonio 101-94

Sacramento - Philadelphia 107-106

Portland - Golden State 108-122

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×