Körfubolti

Lou Williams besti sjötti maðurinn í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lou Williams.
Lou Williams. Vísir/Getty
Lou Williams, 28 ára gamall bakvörður Toronto Raptors, var í dag útnefndur besti sjötti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta á þessu tímabili.

Williams kom með 15,5 stig að meðaltali inn af bekknum og hjálpaði Toronto Raptors að setja nýtt félagsmet með því að vinna 49 leiki.

Williams var að spila sitt fyrsta tímabil með Toronto Raptors en þetta var tíunda tímabil hans í NBA-deildinni. Hann er fyrsti leikmaður Toronto Raptors sem fær þessi verðlaun.

78 af 130 íþróttafréttamönnum sem skipa valnefndina settu Lou Williams í fyrsta sætið en hann fékk alls 502 stig. Isaiah Thomas hjá Boston Celtics varð annar með 324 stig en í þriðja sætinu kom síðan Jamal Crawford hjá Los Angeles Clippers.

Jamal Crawford vann þessi verðlaun í fyrra en J.R. Smith fékk þau fyrir tímabilið 2012-13.

Williams kom inn af bekknum í öllum 80 leikjum sínum á tímabilinu en hann var að skora þessi 15,5 stig á 25,2 mínútum að meðaltali í leik. Hann varð stigahæsti leikmaður liðsins í 18 leikjum og Toronton vann 14 af þessum 18 leikjum.

Umfjöllun um verðlaunin á heimasíðu NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×