Innlent

Landvernd krefst þess að virkjanatillaga verði dregin til baka

Heimir Már Pétursson skrifar
Nokkur hundruð manns komu saman á Austurvelli í dag til að mótmæla virkjanahugmyndum. Formaður Landverndar segir tillögurnar í andstöðu við lög um rammaáætlun sem taka eigi til verndar og nýtingar náttúruauðlinda.

Almenningur hefur skoðun á virkjanamálunum eins og þingmenn og boðaði Landvernd til útifundar á Austurvelli síðdegis til að mótmæla breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar. Snorri Baldursson formaður Landverndar segir samtökin vilja að Alþingi virði það ferli sem sett sé fram í lögum um rammaáætlun sem samþykkt hafi verið fyrir sextán árum.

„Einmitt til að koma í veg fyrir svona átök og upphlaup eins og nú er á Alþingi,“ segir Snorri.

Mótmælafundurinn kom skilaboðum sínum til formanns atvinnuveganefndar.

Heldur þú að enn sé hægt að koma í veg fyrir að þessi tillaga verði samþykkt?

„Já ég treysti því. Þetta er svo fíflaleg tillaga að ég held að menn verði hreinlega að draga hana til baka,“ segir Snorri. Landvernd sé ekki almennt á móti því að það sé virkjað.

„Nei alls ekki. Þetta ferli var þannig byggt upp að búnir eru til þrír flokkar; verndarflokkur, biðflokkur og nýtingarflokkur og það er sjálfsagt að virkja þá kosti sem eru í nýtingarflokki og þeir eru nokkrir nú þegar,“ segir Snorri Baldursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×