Körfubolti

99 prósent líkur á því að Aldridge fari frá Portland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LaMarcus Aldridge.
LaMarcus Aldridge. Vísir/Getty
LaMarcus Aldridge, einn besti stóri framherji NBA-deildarinnar, og leikmaður Portland Trail Blazers undanfarin níu tímabil, er á förum frá félagi samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla.

Aldridge er að renna út á samningi og það er ekki búist við því að hann skrifi undir nýjan samning við Portland Trail Blazers þar sem hann var með 23,4 stig og 10,2 fráköst að meðaltali í leik á nýloknu timabili.

Heimildarmaður ESPN segir að það séu 99 prósent líkur á því að Aldridge yfirgefi Portland og semji við annað félag í NBA-deildinni.

Þau félög sem eiga möguleika á því að ná samningum við LaMarcus Aldridge eru San Antonio Spurs, Los Angeles Lakers, New York Knicks, Dallas Mavericks og Atlanta Hawks.

Heimildir ESPN-blaðamannanna Marc Stein og Chris Broussard herma að mestar líkur séu á því að hann semji við San Antonio Spurs en félagið þarf þá að finna leiðir til að koma góðum samningi hans undir launaþakið um leið og að ná því að framlengja við þá Tim Duncan og Manu Ginobili.

LaMarcus Aldridge spilaði körfubolta í háskóla í Austin í Texas-fylki sem er ekki langt frá San Antonio og þá er vitað að hann sé mjög spenntur að fá tækifæri til að spila fyrir Gregg Popovich, þjálfara Spurs-liðsins.

Los Angeles Lakers telur sig eiga möguleika á því að semja við Aldridge en hann býr í LA þegar hann er í fríi frá körfuboltanum.

Fyrir draumóramenn í Cleveland þá væri möguleiki á því að næla í LaMarcus Aldridge en aðeins með því að semja fyrst við Kevin Love og skipta síðan á þeim Aldridge og Love. Love er ættaður frá Oregon þar sem Portland Trail Blazers hefur aðsetur.

Það eru því margir möguleikar í stöðunni og því spennandi að sjá hvar LaMarcus Aldridge spilar á næsta tímabili. Hann er einn af betri leikmönnum deildarinnar og því mikill styrkur fyrir hvaða lið sem er í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×