Erlent

Ræðismaður Íslands í Grikklandi: „Grikkir eru bara saman í þessu“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Grikkir eru nú tilbúnir að vinna saman að því að finna lausn á skuldavanda þjóðarinnar. Þetta segir ræðismaður Íslands í Grikklandi um áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í gær.



61,3 prósent grísku þjóðarinnar höfnuðu samningum við kröfuhafa ríkisins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í gær en 38,7 prósent samþykktu. Þúsundir fögnuðu á götum úti eftir að úrslitin voru ljós.

Sjá einnig: „Niðurstaðan er mjög sorgleg fyrir Grikkland“



YannisLyberopoulus, ræðismaður Íslands í Grikklandi, segir að partý hafi verið á götum úti hjá þeim sem töluðu fyrir því að samningnum yrði hafnað. Hann segir að nú sé samstaða meðal grísku þjóðarinnar um að leysa vandann.



„Grikkir eru bara saman í þessu, held ég, það er það eina sem maður getur sagt um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Grikkir eru saman og eru tilbúnir að vinna saman, sem er kannski eitthvað nýtt fyrir Grikkland,“ segir hann.



Fjármálaráðherra Grikklands, YanisVaroufakis, hefur sagt af sér embætti. Í bloggfærslu þar sem hann tilkynnti afsögn sína sagði hann ákvörðunina tilkomna vegna þrýstings evrópskra leiðtoga um hann tæki ekki frekari þátt í skuldaviðræðum þjóðarinnar. Yannis segir að Grikkir séu ánægðir með afsögnina.

Sjá einnig: Varoufakis segir af sér



„Það er skýrt að allir vilja að forsætisráðherrann hafi besta umhverfið í kringum sig til þess að geta gert það besta sem hann getur. Þannig að fólk sem er ekki að skila sínu fór frá í gær. Hættu bara,“ segir hann.



Yannis segir engan þó búast við því að atkvæðagreiðslan leiði til þess að vandinn verði leystur á forsendum Grikkja. „Nei ég held að það verði ekki. Við megum ekki fara svo langt að segja að þetta verði leyst eins og Grikkir vilja,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×