Erlent

Þýska þingið kýs um neyðarlán

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að þýska þingið samþykki það að veita Grikkjum neyðarlán
Talið er að þýska þingið samþykki það að veita Grikkjum neyðarlán Vísir/AFP
Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, hefur varað þingmenn á þýska þinginu við því að það yrði óabyrgt af þeim að hafna því að veita gríska ríkinu þriðja neyðarlánið. Kosið er í dag og búist er við að þýska þingið samþykki þennan björgunarpakka sem myndi veita gríska ríkinu aðgang að um 86 milljörðum evra til næstu þriggja ára.

Talið er að um 60-100 stjórnarþingmenn muni kjósa gegn því að veita Grikkjum neyðarlán en stjórnarmeirihlutinn er það sterkur, 504 sæti af 631 í þýska þinginu, að samsteypustjórn Angelu Merkel ætti að standa þetta af sér auk þess sem að stjórnarandstæðingaflokkarnir við Sósíaldemókratar og Græningjar styðja neyðarlánið. Schauble mælti fyrir neyðarláninu og sagði að það væri mikilvægt að gefa Grikkjum tækifæri á nýju upphafi.

„Það er engin trygging fyrir því að þetta muni allt saman virka og það má alltaf efast. Ef við tökum það hinsvegar með í reikninginn að gríska þingið hefur samþykkt nær allar þær aðgerðir sem fylgja eigi neyðarláninu væri það óábyrgt af okkur að grípa ekki þetta tækifæri á nýju upphafi í Grikklandi.“

Í gær samþykktu þing Austurríkis, Eistlands og Spánar að veita Grikkjum neyðarlán í þriðja skipti. Hollenska þingið kemur jafnframt saman í dag til að kjósa.


Tengdar fréttir

Klukkan tifar á skuldavanda Grikkja

Banka­stjóri stærsta banka lands­ins, seg­ir að það yrði "brjálæði“ ef grísk stjórnvöld komast ekki að samkomulagi um skuldavanda landsins fyrir mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×