Erlent

Ungverjar senda um 2.100 lögreglumenn að serbnesku landamærunum

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrr í sumar hófu Ungverjar að reisa 1.100 kílómetra langa girðingu á landamærunum.
Fyrr í sumar hófu Ungverjar að reisa 1.100 kílómetra langa girðingu á landamærunum. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa ákveðið að senda rúmlega 2.100 lögreglumenn að landamærum landsins að Serbíu til að stöðva straum flóttamanna.

Fréttir hafa borist af því að lögregla hafi beitt táragasi gegn fleiri hundruð flóttamönnum sem hafast við í búðum í bænum Röszke, nærri serbnesku landamærunum.

Talsmaður ungversku lögreglunnar segir að þessi herta landamæragæsla verði að fullu komin til framkvæmda eftir rúma viku, eða þann 5. september.

Fjöldi þess flóttafólks sem kemur sér inn á Schengen-svæðið á landamærum Ungverjalands og Serbíu hefur aukist mikið síðustu mánuði. Lögregla segir að um 2.500 manns hafi haldið yfir landamærin í gær sem sé met.

Í frétt Dagens Nyheter segir að stjórnvöld í Ungverjalandi íhugi einnig að senda hermenn á vettvang til að stöðva strauminn. Tillaga um slíkt verður rædd í ungverska þinginu í næstu viku.

1.100 kílómerta löng girðing

Fyrr í sumar hófu Ungverjar að reisa 1.100 kílómetra langa girðingu á landamærunum.

Flóttafólkið fer jafnan frá Grikklandi, um Makedóníu og Serbíu og reynir svo að komast inn til Ungverjalands. Þaðan heldur ferðin oft áfram til Þýskalands eða Norðurlanda.

Flestir flóttamannanna koma til Evrópu frá Ítalíu og Grikklandi, en áætlað er að um 300 þúsund manns hafi komið til landanna frá stríðshrjáðum löndum, bæði í Miðausturlöndum og Afríku, það sem af er ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×