Fótbolti

Freyr: Allir leikmennirnir eiga meira inni

Kristinn Páll Teitsson á Laugardalsvelli skrifar
vísir/pjetur
„Á köflum var ég ánægður í kvöld en það komu slæmir kaflar inn á milli,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, við Vísi eftir 4-1 sigur liðsins á Slóvakíu í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel í fyrri og seinni hálfleik og skoraði snemma en inn á milli komu langir slæmir kaflar þar sem liðið var ekki að spila vel.

„Ég hefði viljað fylgja fyrsta markinu betur eftir. Fyrstu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik voru fínar en seinni 25 ekkert sérstakar,“ sagði Freyr, en hvað veldur?

„Það var bæði ryð og annað. Við náðum ekki að halda boltanum nógu vel en við fórum fínar leiðir. Það vantaði bara meira frumkvæði og hugrekki. Ég hef samt engar áhyggjur af þessu. Þetta verður allt í toppstandi á þriðjudaginn.“

Hann var ánægður með karakterinn í liðinu að skora strax eftir að fá á sig mark í stöðunni 2-0.

„Það vantar ekkert upp á karakterinn í þessum hópi. Þetta voru góð mörk og það var sterkt að skora eftir að fá á sig mark og klár þetta. Þetta var flott frammistaða, en allir leikmennirnir eiga örlítið meira inni,“ sagði Freyr.

Hvað var það jákvæða í leiknum að mati þjálfarans? „Fjögur mörk og nokkuð gott uppspil á köflum. Líka það að nú erum við búin að spila fyrsta leikinn saman og ættum að vera betur undirbúin fyrir erfiðari leik gegn Hvíta-Rússlandi á þriðjudaginn,“ sagði Freyr Alexandersson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×