Innlent

„Óþolandi og óbjóðandi“ hvernig Sigmundur Davíð kemur fram við þingið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. vísir/gva/daníe
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir það „óþolandi og óbjóðandi“ hvernig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, kemur fram við þingið.

„Ég er eiginlega algjörlega hættur að sykra það eitthvað. Hvernig þessi forsætisráðherra kemur fram við þingið er bara ekki í lagi, við eigum ekki að láta eins og það sé í lagi,“ segir Helgi Hrafn í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Í viðtalinu segir Helgi að það skipti máli þegar valið er í ríkisstjórn að þar komi inn hæft fólk. Nú séu bæði í ríkisstjórn óhæfir einstaklingar og svo mjög hæfir einnig.

„Ég er til dæmis alveg algjörlega blygðunarlaust aðdáandi Ólafar Nordal [innanríkisráðherra], sem mér finnst frábær ráðherra. Illuga Gunnarssyni [menntamálaráðherra] er ég oft ósammála, en ég ber virðingu fyrir því hvernig hann nálgast suma hluti.“

Þá nefnir Helgi einnig Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, sem mjög góðan ráðherra þó hann segist ósammála nálgun ráðherrans í ýmsu þegar kemur að efnahagsmálum:

„[...] eða stundum er ég sammála honum – en hann sýnir þinginu virðingu, hann er góður ráðherra í sjálfu sér, ef maður er sammála honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×