Körfubolti

Thompson heimtar hámarkssamning en Cleveland segir nei

Tómas Þór Þórðarson skrifar
"Borgið manninum.“
"Borgið manninum.“ vísir/getty
Tristan Thompson, leikmaður Cleveland Cavaliers, verður ekki til taks á fjölmiðladegi liðsins seinna í dag þar sem hann hefur ekki enn skrifað undir ýjan samning.

Thompson er búinn að vera í samningaviðræðum við Cleveland í allt sumar en neitar að taka tilboði liðsins sama hvað kemur á borðið. ESPN greinir frá.

Cleveland er búið að bjóða honum fullt af samningum, en sá síðasti hefði tryggt honum 16 milljónir dollara í árslaun.

Thompson vill ekki sjá svoleiðis hnetur og heimtar 53 milljóna dollara hámarkssamning sem gildir í þrjú ár eða fimm ára og 94 milljóna dollara samning.

Flestir sem fylgjast með NBA-deildinni eru sammála um að Thompson eigi ekki skilið hámarkssamning þó hann sé afar fjölhæfur og góður leikmaður.

Thompson er ekki frjáls á markaðnum þannig Cleveland getur neytt hann til að vera áfram og borgað honum 6,9 dollara fyrir tímabilið. Þá yrði hann aftur á móti alveg laus næsta sumar.

Það gæti verið það sem Thompson vonar að gerist, en launaþakið í NBA-deildinni hækkar verulega næsta sumar og geta menn þá fengið stærri samninga en nokkru sinni fyrr.

Umboðsmaður Thompsons er Rich Paul, sá hinn sami og sér um samningamál LeBron James. Talið var nokkuð öruggt að Thompson fengi nýjan samning hjá Cleveland vegna tengsla sinna við Paul og LeBron, en forráðamenn Cleveland virðast ekki taka í mál að borga Thompson hámarkssamning.

Báðir aðilar hafa frest til fimmtudags til að finna lausn á málinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×