Viðskipti innlent

WOW air hefur áætlunarflug til Svíþjóðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skúli Mogensen, forstjóir WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóir WOW air.
WOW air mun hefja áætlunarflug til Västerås, um 100 kílómetra frá Stokkhólmi, þann 19. maí næstkomandi og fljúga þangað fjórum sinnum í viku á mánudögum, þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum allan ársins hring.

Flugfélagið mun fljúga til Stockholm Västerås flugvallar (VST) en frá flugvellinum eru greiðar samgöngur bæði með lest og rútu til miðborgar Stokkhólms. Vegalengdin frá flugvellinum til borgarinnar er um 100 kílómetrar. Flugvöllurinn þjónar einnig borgunum Uppsala, Västerås, Örebro og Eskilstuna. Svo segir í fréttatilkynningu frá WOW air.

Icelandair flýgur til Stokkhólms alla virka daga og ljóst að með útspili WOW air er komin á samkeppni í flugi utan.

„Við erum mjög spennt fyrir því að taka á móti WOW air á Stockholm Västerås flugvelli og fögnum nýjum flugleiðum bæði til Íslands og með áframhaldandi tengiflugi til Norður-Ameríku. Flugvöllurinn er mjög þægilegur með stuttum vegalengdum svo farþegar eru fljótir að fara í gegnum völlinn eftir að lent er. Rútur og bílastæði eru aðeins nokkra metra frá komusal sem gerir ferðalagið sem þægilegast fyrir farþega sem lenda á flugvellinum. Ég er afskaplega stoltur af því að árangursríkt flugfélag eins og WOW air skuli velja Stockholm Västerås“ segir Mikael Nilsson forstjóri flugvallarins.

Í Svíþjóð búa um 9 milljónir manna og er landið fjölmennasta land Skandinavíu. Ferðamönnum til Íslands frá Svíþjóð hefur fjölgað síðustu ár og eru Svíar í 7. sæti yfir þær þjóðir sem sóttu Ísland heim á síðasta ári. Um 41 þúsund Svíar komu til landsins árið 2014 samkvæmt Ferðamálastofu.

„Það er ánægjulegt að tilkynna áætlunarflug til Stokkhólms en ég bjó í Svíþjóð stóran hluta æsku minnar og hef því sterkar taugar til lands og þjóðar. Flug til Stokkhólms allan ársins hring er liður í stækkun WOW air og styrkir jafnframt leiðarkerfi félagins. Við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir lægra flugverði frá þessum markaði og meira framboð af lægri fargjöldum mun auka enn vöxt fjölda sænskra ferðamanna til landsins ásamt því að Svíar geta nýtt sér tengiflug til Bandaríkjanna“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×