Innlent

Bankasýsla gat ekki svarað nefndinni

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar vísir/vilhelm
Bankasýsla ríkisins gat ekki svarað framlögðum spurningum varaformanns fjárlaganefndar, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, á fundi nefndarinnar í gær. Til umræðu var sala Arion banka á hlut í símanum áður en kom að almennu hlutafjárútboði. Ástæða þess að skorti á svör var að Bankasýslan hafði ekki gögn undir höndum frá bankanum.

„Við í fjárlaganefnd erum að kalla eftir upplýsingum á grunni meginmarkmiða eigendastefnu sem við sjálf höfum sett okkur. Markmiðið er að byggja upp traust. Þetta snýst ekki um eitt mál, þetta er mun stærra en það,“ segir Guðlaugur Þór.

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, segir þennan gerning Arion banka óforsvaranlegan og telur að bankinn eigi ekki að veita vildarvinum sínum sérstök kjör. Hún segir erfitt fyrir ríkið að standa við eigendastefnu sína um traust ef hún getur ekki fengið upplýsingar frá bankasýslu ríkisins.

Guðlaugur Þór telur eðlilegt að bíða eftir upplýsingum áður en menn ana að einhverri niðurstöðu í málinu. „Ég ætla ekki að fella neina dóma fyrr en ég hef fengið að sjá þau gögn sem varpa ljósi á stöðuna og lýsa hvernig á málum var haldið. Það er alls ekki tímabært á þessari stundu,“ segir Guðlaugur Þór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×