Skoðun

Kirkjan er ávöxtur vináttu og trúar

Bjarni Karlsson og Gregory Aikins skrifar
Við sem þetta ritum höfum lengi verið vinir. Við höfum ræktað með okkur sérstaka vináttu sem okkur langar að deila með öðru fólki. Um árabil hittumst við hvern þriðjudagsmorgun kl. 10 til að lesa Biblíuna, biðja saman og eiga gott samtal með það að markmiði að veita hvor öðrum aðhald til að lifa ósviknu andlegu lífi. Það hefur orðið reynsla okkar að sú einfalda iðkun sem fólgin er í daglegum Biblíulestri og bæn ásamt vikulegu trúnaðarsamtali geri okkur betri en ella. Biblíulestur gefur þekkingu á Guði og mönnum, bænin veitir frið og öryggi og trúnaðarsamtalið skilur mann eftir með þá vissu að það sé í lagi að vera maður sjálfur.

Við finnum öll að tímarnir eru að breytast. Kristið fólk í landinu skynjar örar breytingar í ytri þáttum og upplifir jafnvel kirkjuna sína í vörn. Við sem þetta ritum óttumst ekki þær breytingar sem nú ganga yfir. Við sjáum fyrir okkur kirkju Jesú Krists lifa og dafna í fjölmenningarþjóðfélaginu. Við trúum því að fjölmenningin sé hluti af Guðs góðu sköpun og að hann vilji að kristið fólk vandi sig við að lifa í heiminum eins og hann er. Almannarýmið er og verður vettvangur kristinnar kirkju.

Um leið og þrengt er að hefðbundnu kirkjustarfi með margvíslegu móti skapast ný tækifæri til að lifa trúna í daglegu lífi og bera Jesú Kristi vitni. Kristin kirkja er ekki háð peningum, húsum eða embættum, hún er fjöldahreyfing þeirra sem vilja vera vinir og nemendur Jesú. Hann fæddist sem fátækur flóttamaður og var á endanum yfirgefinn af öllum. Sigur hans er sigur yfir ranglæti og einsemd og góða fréttin er sú að réttlæti og vinátta stendur öllum til boða í hans nafni.

Kirkja Jesú er lífræn. Það merkir að hún vex innan frá, líkt og fræ sem sáð er í jörð eða grein á tré. Hún er ekki árangur af markaðssetningu heldur ávöxtur vináttu og trúar. Hún er ekki skipulag sem komið er á heldur atburður, fólk á ferð með góðar fréttir og veislu í farangrinum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×