Innlent

Snjórinn stoppar ekki hafnargarðsmenn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vinna við að fjarlægja hafnargarðinn við Austurbakka við Reykjavíkurhöfn heldur áfram þrátt fyrir mikla snjókomu undanfarna daga.

Þegar Vísir leit við á svæðinu voru starfsmenn í óðaönn við að undirbúa flutninga á steinunum. Verkið hófst á föstudaginn og voru þá fjarlægðir 32 steinir en alls þarf að merkja og fjarlæga á milli fimmtán til sextán hundrað steina.

Eins og sjá á meðfylgjandi myndbandi er þetta þriggja manna verk, einn sópar snjóinn af, annar borar holu fyrir merkinguna og sá þriðji festir blikkmerki á steininn svo menn viti hvar hver steinn á að fara þegar þessu verður öllu raðað saman á nýjan leik.

Hver og einn steinn fær svona tölusetta merkingu.Vísir/TPT
Snjókoman kætti ekki þá sem sjá um að fjarlægja steinana.

Markús Guðjónsson, skrúðgarðyrkjumeistari, fer með yfirumsjón við fjarlægingu hafnargarðsins og hann segir verkið ganga rólega en þó miði mönnum áfram. Hann vonast til þess að daglega takist að fjarlægja mun fleiri en 30 steina á dag en viðurkennir að snjórinn muni hægja á verkinu.

„Við erum að gera okkur vonir um að þetta verði á bilinu áttatíu til hundrað steinar á dag. Veðrið var ekki til þess að kæta okkur og snjórinn mun setja strik í reikninginn varðandi flutninga,“ en líkt og áður hefur komið fram verða steinarnir fluttir út á Granda á svæði Faxaflóhafna þar sem þeir verða geymdir þangað til að þeir rísa á ný.

Markús reiknar með að það muni taka um einn og hálfan til tvo mánuði að ljúka verkinu en í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá aðstæður og hvernig verkið er unnið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×