„Þetta er flottasta hugmynd sem ég hef heyrt,“ segir Logi í samtali við blaðamann Vísis.
Myndhöggvara leitað
Hafnfirðingurinn Friðrik Oddsson, sem ávallt var kallaður Fiddi, féll frá nýverið. Hann var vinsæll með afbrigðum og kom það berlega í ljós þegar fráfall hans spurðist, bæði á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum. Logi var mikill vinur Fidda eins og fram kom í minningarorðum hans á Facebook.
Vísir greindi frá fráfallinu og viðbrögðum vina hans, sjá hér.
Við það tækifæri var því slegið fram af hálfu blaðamanns að Fiddi væri slíkur erki-Hafnfirðingur að vert væri að Hafnarfjörður léti reisa af honum styttu og kæmi fyrir í miðbænum. Seinna kom fram á Facebook mynd sem Bergur Ólafsson tók og þykir hún ljómandi fyrirmynd fyrir listamann, myndhöggvara að styðjast við. Nú hefur Logi tekið hugmyndina upp á sína arma. Hann segir að þá sé bara að finna rétta listamanninn í verkið og gera þetta svo í samráði við Hafnarfjarðarbæ.
Fiddi vissi að hann var dauðvona
Logi hefur haft í ýmsu að snúast að undanförnu en að höfðu samráði við fjölskyldu Fidda bauðst Logi til að taka að sér framkvæmd og alla skipulagningu jarðarfararinnar. Nú liggur fyrir hvernig henni verður háttað. Jarðsungið verður frá Hafnarfjarðarkirkju 10. desember.
„Tveir prestar, Bubbi, Páll Rósenkranz og Karlakórinn Þrestir syngja. FH og Haukar standa heiðursvörð,“ segir Logi.

Athöfninni verður sjónvarpað í Kaplakrika
Flestir Hafnfirðingar þekktu Fidda og má búast við því að kirkjan verði troðin. En Logi er búinn að ganga frá því að Exton mæti og sjónvarpi athöfninni í Kaplakrika og til Vestmannaeyja þar sem hópur fólks ætlar að fylgjast með.
Annars verður athöfnin á þessa leið:
Í kirkjunni: Kórinn með intro: Ave verum corpus. Páll Rósinkranz: Drottinn er minn hirðir. Bubbi Mortens: Kveðja. Páll Rósinkranz: Þannig týnist tíminn. Karlakórinn Þrestir: Söknuður (stjórnandi Jón Kristinn Cortez). Kórinn: Time to say goodye (meðan Fiddi er borinn út). Organisti: Tómas Guðni Eggertsson Hljóðkerfi og aðstoð: Palli Eyjólfs Prime. Prestur: Einar Eyjólfsson. Upptaka og útsending: Exton. Staðarhaldari og kirkjuþjónn: Ottó R. Jónsson.
Að lokinni athöfn verður erfidrykkja í Kaplakrika.