Fótbolti

Dagný á bara eftir að skrifa undir við þýska félagið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagný á að baki 41 landsleik.
Dagný á að baki 41 landsleik. vísir/Andri marinó
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir er á leið í þýsku úrvalsdeildina en hún hefur komist að samkomulag við lið þar í landi. Ferli hennar í bandaríska háskólaboltanum lauk með meistaratitli Florida State-liðsins í haust.

„Þetta er lið sem er í efstu deild en þýska deildin er ein sú allra sterkasta í heimi,“ sagði Dagný í samtali við Fréttablaðið í gær. „Samkomulagið er í höfn en undirskriftina vantar og bað liðið mig um að segja ekki meira í bili.“

Dagný var á leið til Bandaríkjanna þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hennar í gær en hún verður viðstödd verðlaunaafhendingu fyrir tímabilið í NCAA-deildinni en hún var fyrirliði liðs Florida State. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem gekk til liðs við Fylki í vikunni, lék einnig í sama skóla.

Hún er ein þriggja sem eru tilnefndar sem besti leikmaður tímabilsins en verðlaunaathöfnin fer fram í St. Louis.

„Hinar tvær eru í bandaríska landsliðinu og önnur þeirra vann þessi verðlaun í fyrra. En ég vona auðvitað að allt þetta ferðalag verði ekki til einskis og að ég vinni þetta,“ segir hún í léttum dúr.

Eftir verðlaunaafhendinguna heldur hún til Þýskalands þar sem hún mun ganga formlega frá samningum við sitt nýja félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×