Danir sendu íslenska handboltalandsliðið heim af HM í Katar með fimm marka sigri í sextán liða úrslitunum í fyrrakvöld. Þetta er í sjötta sinn sem strákarnir okkar eru slegnir út í útsláttarkeppni heimsmeistaramótsins í handbolta en það hefur þó aldrei boðað gott fyrir viðkomandi lið að senda íslenska liðið heim.
Engu liði sem hefur unnið Ísland í útsláttarkeppni HM hefur tekist að fara alla leið og verða heimsmeistari og í raun hefur Íslandsbönum aðeins tekist að vinna einn af fimm leikjum sínum í næsta leik eftir sigurinn á Íslandi.
Eina liðið sem hefur náð að fylgja eftir sigri á Íslandi í útsláttarkeppni HM með sigri var lið Júgóslavíu á HM í Frakklandi fyrir fjórtán árum. Júgóslavar unnu þá Spánverja í átta liða úrslitum en töpuðu síðan fyrir Svíum í undanúrslitum.
Það reynir á þessa hefð í kvöld þegar Danir mæta heimsmeisturum Spánverja í átta liða úrslitum HM í Katar. Hvort það verður sama uppskrift og á Spáni fyrir tveimur árum verður að koma í ljós.

