Skoðun

Er sjálfsagt að svíkja fyrirheit?

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar
Ekkert lyklafrumvarp er í smíðum. „Kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Um verði að ræða tímabundna aðgerð sem miði að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Niðurstaða liggi fyrir í september 2013.“

Þetta segir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá vordögum hennar. Við þessi fyrirheit verður ekki staðið samkvæmt því sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra upplýsti á Alþingi í gær. Og kemur eflaust mörgum á óvart.

Ólöf hafði áður gefið fyrirheit um lyklaleiðina. „Það er alveg rétt og þarf ekki að hafa mörg orð um það að lyklaleiðin var ein þeirra leiða sem við sjálfstæðismenn töluðum um á síðasta kjörtímabili og var líka hluti af þeim skuldapælingum sem ég ræddi um á flokksráðsfundi árið 2012,“ sagði Ólöf í ræðustól Alþingis, eftir að Helgi Hjörvar spurði hana um málið. Niðurstaðan er mörgum vonbrigði. Fólkið sem skuldar umfram eignir batt vonir við að geta gengið út skuldlaust og þá einnig eignalaust. Nú blasir við að eignirnar eru tapaðar en skuldirnar hverfa ekki. Það er ömurlegt hlutskipti.

Í sömu aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar segir: „Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána.“

Þarna stangast orð ráðherrans á við það sem talið var að væri í pípunum. Í aðgerðaáætluninni, boðorðunum tíu, sem var samþykkt á Alþingi skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við, var gert ráð fyrir hvoru tveggja, leiðréttingunni og lyklaleiðinni. Nú er verið að blása lausnina fyrir verst settu skuldarana af. Staða þess fólks verður erfið um langa framtíð.

Helgi Hjörvar gerði forsíðufrétt Fréttablaðsins frá því gær að umtalsefni. Þar sagði Ásgeir Jónsson hagfræðingur um afnám fjármagnshaftanna: „Meginhluti af lánum heimilanna er verðtryggður og gengislán og verðtryggt lán er nokkurn veginn sama lánið. Það þarf að undirbúa almenning fyrir þetta og undirbúa stofnanakerfið þannig að þetta sé einfaldlega pólitískt mögulegt.“

Helgi Hjörvar sagði á Alþingi: „Nú eru auðvitað vaxandi áhyggjur af því að við afnám gjaldeyrishafta geti skuldir heimilanna aftur rokið upp úr öllu valdi. Þá væri það auðvitað mikilvæg trygging fyrir heimilin í landinu ef búið væri að ganga frá því í lög að sama staða kæmi ekki upp aftur, sem ég tel að hafi verið mistök af okkur hér á Alþingi, að heimilin yfirhöfuð geti lent í þeirri stöðu að vera yfirskuldsett.“

Ólöf sagði að mörgu að hyggja við losun haftanna, en á Alþingi í gær kvað hún upp úr með að þeir skuldara sem eru í hvað verstri stöðu geta hætt að vonast til að geta gengið út af heimilum sínum skuldlausir. Skuldirnar munu fylgja þeim, hvert sem þeir fara. Trúlega eru þetta vond skilaboð fyrir það fólk sem fyrir verður. Við hin verðum að spyrja hvort það gangi að stjórnmálamenn segi eitt en geri annað. Framundan eru átök um slit á Evrópuviðræðunum, þrátt fyrir skýr loforð um annað.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×