Skoðun

Markaðsbrestur á okkar kostnað

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þrír bankar, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru samanlagt með 90 prósent markaðshlutdeild á íslenskum fjármálamarkaði.

Fákeppnismarkaður eins og hinn íslenski er í eðli sínu markaðsbrestur (e. „market failure“) af því tagi sem Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og fleiri hafa skrifað um.

Íslenskir neytendur bera í raun tjónið af þessari fákeppni í formi rentusóknar (e. „rent seeking“) sem þessir bankar hirða til sín af almenningi. Þannig verður bein tilfærsla auðs frá almenningi til bankanna, oft í formi gjalda langt yfir raunverulegu kostnaðarverði, án þess að það eigi sér stað einhver verðmætasköpun í millitíðinni. Í krafti fákeppni og yfirburða á sér stað óeðlileg tilfærsla fjár frá almenningi til fjármálafyrirtækja. Í þessu felst markaðsbresturinn.

Af samanlögðum hagnaði stóru bankanna þriggja í fyrra námu þjónustugjöld af einhverju tagi alls 30 milljörðum króna eða um 40 prósentum af 80 milljarða króna samanlögðum hagnaði bankanna. Það getur varla verið tilviljun að hlutfall þjónustugjalda í hagnaði var minnst hjá ríkisbankanum.

Joseph Stiglitz segir í bók sinni The Price of Inequality að rentusókn af þessu tagi eigi sér margar birtingarmyndir. Ein þeirra sé slök framfylgni samkeppnislöggjafar og ákvæði sem heimila fyrirtækjum að hagnast óeðlilega á kostnað annarra eða færa kostnað af starfsemi sinni yfir á almenning.

Ef það væri eðlileg samkeppni á íslenskum bankamarkaði þá gætu bankarnir ekki rukkað viðskiptavini sína með þessum hætti, það væri eðlileg kostnaðarmyndun fyrir „vörur“ bankanna. Þeir myndu ekki græða svona mikið á vaxtamun á kostnað almennings og þeir myndu skila hóflegum hagnaði. Það fæli eðlilega í sér bættan hag heimilanna.

Staðan á íslenskum fjármálamarkaði er alvarlegt áhyggjuefni vegna fákeppninnar. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að eðlilegt sé að hætta við áform um einkavæðingu hluta Landsbankans af þessum sökum og hafa bankann einfaldlega áfram í ríkiseigu.

„Ríkið ætti að eiga einn banka og fela honum það verkefni að skila hóflegri arðsemi og hvetja til aukinnar samkeppni á bankamarkaði. Ég held að það væri langskynsamlegast og best fyrir þjóðina,“ sagði Frosti í fréttum Stöðvar 2 um málið. Frosti vill raunar að ríkið eigi 100% í bankanum og kaupi það rúmlega eitt prósent sem er í eigu starfsmanna.

En gæti ekki einhver með sömu rökum haldið því fram að ríkið ætti líka að reka flugfélag eða fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum? Það er ákveðin einföldun að ræða hlutina í þessu samhengi. Straumur fjármagns liggur frá bönkum og þessi straumur er oft á tíðum lífæð fyrirtækjanna í landinu. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Í því virka fákeppnisumhverfi sem nú ríkir á bankamarkaði er æskilegt að ríkisbanki stígi á bremsuna til að hafa taumhald á hinum bönkunum og stuðla að virkri samkeppni.

Á Íslandi búa 340.000 manns. Hvað kallar á það að fámennur hópur fjárfesta fái að kaupa stóran hlut í Landsbankanum og hvaða tilgangi þjónar það? Á að einkavæða þennan banka „af því bara“ svo fjárfestar geti grætt nógu mikið á honum?

Landsbankinn hefur þegar greitt eiganda sínum, íslenska ríkinu, 54,5 milljarða króna í arð vegna síðustu þriggja rekstrarára. Ef Landsbankinn er vel rekinn banki, með það fyrir augum að fyrirbyggja ríkisvætt tap, og rekinn af hæfu fólki eftir sömu lögmálum og slíkur banki í eigu einkaaðila, hvað kallar á einkavæðingu hans?

Höfundur er lögfræðingur og starfar sem fréttamaður. Pistillinn birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×