Skoðun

Kínverskir kvenrithöfundar og líf þeirra – fyrri hluti

Li Sihan skrifar
Árið 2015 eru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis. Gjörbreyting hefur einnig orðið á stöðu kínverskra kvenna í tímans rás. Lífsreynsla kvenrithöfunda er smásjá þessara breytinga. Í eftirfarandi grein eftir Li Sihan eru fróðlegar upplýsingar um þessar konur. Ég mæli með henni og deili greininni með ykkur.

Zhang Weidong, sendiherra Alþýðulýðveldisins Kína á Íslandi.

Kínverskar bókmenntir má rekja til þriðju aldar fyrir Krist og eiga sér því rúmlega 2.000 ára sögu. Í aldanna rás hafa fjölmargir rithöfundar skapað óteljandi bókmenntaverk. Þeir voru flestir karlmenn. Þrátt fyrir að fáar konur væru í hópi rithöfunda um aldir eru kvennabókmenntir einstæður hluti kínverskra bókmennta er setti mark sitt með sérstæðum hætti á þróun þeirra. Stíll kvenna mótaðist mjög af félagslegri stöðu þeirra á hverjum tíma.

Saga kínverskra kvenrithöfunda skiptist í þrjú meginskeið: lénsskipulagið (475 f.Kr. til 1911 e.Kr.), Lýðveldið Kína (1912-1949) og Alþýðulýðveldið Kína (frá 1949).

Fyrsti kvenrithöfundurinn, Ban Zhao (45-116), var úr fjölskyldu þar sem mikil rækt hafði verið lögð við fræði Konfúsíusar. Ban Zhao var undir áhrifum forfeðra sinna, vel lesin og hæfileikarík.

Þrátt fyrir hæfileika sína var Ban Zhao undir áhrifum siðfræði lénsveldisins. Í Kvenbönnum er fjallað um að karlar skuli vera konum æðri og konum beri að hlýða þeim. Kvenbönn varð helsta ritið um siðfræði kvenna fyrr á öldum og hefur haft áhrif á Kínverja í rúm þúsund ár. Áhrifa ritsins gætir jafnvel enn á okkar dögum.

Annar þekktasti kvenrithöfundurinn er skáldkonan Li Qingzhao (1084-1155). Hún er talin áhrifamesta kona kínverskrar bókmenntasögu og er kölluð fyrsti kvenspekingurinn í þúsund ár. Hún fæddist inn í fjölskyldu menntamanna og bjó alla sína ævi við allsnægtir. Hún las mikið í æsku og öðlaðist mikla færni í ritlist. Li Qingzhao giftist Zhao Mingchen, sem lagði einnig stund á bókmenntir. Þau lifðu í farsælu hjónabandi, höfðu bæði áhuga á bókmenntum, myndlist og fögrum gripum. Eiginmaður hennar lést fyrir aldur fram um svipað leyti og Jin-keisaraættin (1115-1234) náði völdum í Kína. Li flúði suður á bóginn þar sem hún lifði í sorg og einsemd.

Þessar breytingar endurspeglast í verkum hennar. Hún skrifaði mest um ró og frið fyrr á tímum, en síðar um örlög og sorgir.

„Stúlkur þurfa ekki á menntun að halda heldur siðgæði“ var haft við orð á tímum lénsveldisins. Konur í almúgafjölskyldum voru hvorki læsar né skrifandi. Eingöngu dætur auðmanna og þeirra sem höfðu getið sér góðan orðstír gátu lagt stund á bókmenntir. Þótt eingöngu sé um nokkra tugi kvenna að ræða hafa hrífandi töfrar verka þeirra borið þau áfram til okkar tíma.

Á tímabili Kínverska lýðveldisins (1911-49) gegndu ýmsar konur æðri stöðum en áður og fjöldi þeirra vann utan heimilis. Kvenrithöfundar létu og mikið að sér kveða. Meðal þeirra var þekktasti og áhrifamesti rithöfundurinn, Zhang Ailing.

Zhang var af gamalli ætt efnamanna. Á meðan hún óx úr grasi skorti ekkert á auðsældina, en mannlega hlýju skorti. Faðir hennar var kaldlyndur að eðlisfari, móðirin ferðaðist um Evrópu í bernsku hennar og foreldrarnir skildu skömmu eftir að móðirin kom aftur til Kína. Zhang bjó áfram hjá föður sínum en samband hennar og stjúpunnar var stirt. Þar sem hún þurfti að sæta ákúrum fyrir þetta þoldi hún ekki við og flúði að heiman. Þessi lífsreynsla setti mjög mark sitt á verk hennar.

Um persónur í bókum hennar eru spunnir flóknir örlagaþræðir. Frásögnin er jafnan beinskeytt og djúp eins og hún horfi á veröldina köldum augum. Lesandinn skynjar sorgina í lífi sögupersónanna og gildir þá einu hvernig endirinn verður.

Zhang giftist tvisvar. Fyrri maður hennar, Hu Lancheng, var einnig rithöfundur. Hu var giftur þegar þau hittust en skildi við konu sína og kvæntist Zhang. Hann var þó ekki við eina fjölina felldur og stofnaði fljótlega til sambands við aðrar konur. Zhang var ljóst að hún unni Hu Lancheng hugástum um leið og hún vorkenndi honum. Hún hélt áfram að styrkja hann fjárhagslega þótt hann væri í tygjum við aðrar konur. En þegar þessu óróleikatímabili lauk í ævi hans og Hu hafði komið sér þægilega fyrir sendi Zhang honum bréf þar sem hún sagði skilið við hann. Eftir það hélt hún um Hong Kong til Bandaríkjanna og giftist þar Bandaríkjamanni sem var 30 árum eldri en hún.

Annar rithöfundur, Xiao Hong, átti svipaða ævi. Á höfundarferli hennar ríkti mikið blómaskeið í bókmenntum, menntun og heimspeki í Kínverska lýðveldinu. Verk hennar, Saga Hulan-fljótsins, lýsir á myndrænan hátt samfélaginu í Norðaustur-Kína á þessum tíma. Stíllinn er frjálslegur og frumlegur, málið eðlilegt og fagurt, á skilum skáldsögu, ljóðs og ljóðrænna hugleiðinga, oft kallaður Xiao Hong-stíll.

Xiao Hong lifði viðburðaríku ástarlífi. Þegar hún var 19 ára strauk hún að heiman til þess að komast hjá að lenda í hjónabandi sem hafði þegar verið ákveðið. Hún leitaði manns sem hún gæti treyst. Tvisvar varð hún barnshafandi og í bæði skiptin yfirgáfu elskhugarnir hana. Um þrítugt veiktist hún og dró sjúkdómurinn hana til dauða.

Þegar ævi kínverskra kvenrithöfunda á lýðveldistímanum er skoðuð er augljóst að konur höfðu öðlast aukna sjálfsvitund og þær lutu ekki lengur forræði eiginmanna sinna eða feðra í blindni.

Höfundur er ritstjóri vinsæls kvennatímarits í Kína. Hún starfar nú við kínverska sendiráðið á Íslandi ásamt eiginmanni sínum, ungum sendiráðunaut.




Skoðun

Sjá meira


×