Skoðun

Átakastjórnmál og þjóðarhagsmunir

Oddný G. Harðardóttir skrifar
„Þessa ríkisstjórn er ekki hægt að styðja í þessu máli frekar en nokkru öðru,“ sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, þegar greidd voru atkvæði um að færa erlendar eigur þrotabúa gömlu bankanna undir gjaldeyrishöftin í mars 2012.

Átakastjórnmál eru leiðinleg og það sem meira er, þau geta valdið gríðarlegum skaða. Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn því í mars árið 2012 að þrotabú gömlu bankanna færu að öllu leyti undir gjaldeyrishöftin og að samningsstaða Íslands gagnvart kröfuhöfum yrði styrkt til mikilla muna. Rökstuðningurinn var ekki efnismeiri en sá að ekki væri hægt að styðja tillögur ríkisstjórnarinnar.

Að eiga í átökum við ríkisstjórnina virtist þá mikilvægara en hagsmunir Íslendinga. Sem betur fer fyrir þjóðarhag þurfti formaður Sjálfstæðisflokksins að lúta í lægra haldi fyrir stjórnarmeirihluta ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í þessu mikilvæga máli.

Nú er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og kynnti nýverið lausn á haftamálinu sem byggir algerlega á lögunum sem hann var á móti sem og öðrum leiðum sem varðaðar voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, samningum við kröfuhafa og útgönguskatti. Hvar værum við stödd ef formanni Sjálfstæðisflokksins hefði tekist það ætlunarverk sitt að koma í veg fyrir lagasetninguna þann 12. mars 2012?

Mörg nauðsynleg skref hafa verið tekin til að verja hagsmuni íslenska þjóðarbúsins vegna hruns bankanna og krónunnar. Lagasetningin 2012 sem setti þrotabúin að öllu leyti undir gjaldeyrishöftin var eitt slíkt skref og afar mikilvægt. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn þeirri lagasetningu og Framsókn sat hjá.

Við höfum ekki heyrt aðra skýringu á afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins frá því í mars 2012 en þá að hann gæti bara ekki stutt neitt sem sú ríkisstjórn sem þá var lagði til. Ef til er önnur skýring er hér með kallað eftir henni.




Skoðun

Sjá meira


×