Skoðun

Aðgerðir strax í þágu barna

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Fyrr í vikunni kynnti UNICEF á Íslandi skýrslu um lífskjör íslenskra barna. Í skýrslunni kom meðal annars fram að hlutfall íslenskra barna sem býr við skort hefur tvöfaldast. Hér eru grafalvarlegar upplýsingar á ferð sem verður að setja í samhengi. Bornir eru saman tveir tímapunktar – árið 2009 og árið 2014. Kannanir sem þessar eru ekki gerðar með reglubundnum hætti og þess vegna ekki gott að átta sig á því hvort breytingar hafi átt sér stað síðan 2014 og þá í hvaða veru.

Ákvarðanir og vilji stjórnvalda á hverjum tíma hafa áhrif á kjör barna. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa barnabætur og vaxtabætur verið lækkaðar, matarskattur verið hækkaður, örorkubætur ekki hækkaðar til samræmis við kjör á vinnumarkaði. Allar þessar ákvarðanir hafa áhrif á daglegt líf og kjör íslenskra barna.

Þegar svo alvarlegar tölur koma í ljós hlýtur það að vera skýlaus krafa að stjórnvöld leggi fram skýra áætlun um að ráðast gegn skorti og fátækt í lífi barna á Íslandi. Við eigum ekki að líða að börn líði skort. Ekki undir nokkrum kringumstæðum og allra síst rík þjóð.

Auk þess að leggja fram slíka áætlun verður ekki við annað unað en að sambærilegar kannanir verði gerðar ár hvert líkt og UNICEF­ á Íslandi hefur lagt áherslu á. Með því móti geta stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, byggt sínar ákvarðanir á traustari grunni öllum börnum til heilla.

Það er ekki bragur að því að tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líða skort fjölgar eins og kemur fram í skýrslunni. Jöfnuður er sannarlega mikilvægt markmið í samfélaginu og verður sífellt meira aðkallandi í heiminum öllum að stemma stigu við misrétti og ójöfnuði hvar sem það birtist. Þegar börn eru annars vegar verður að grípa í taumana og hefja aðgerðir tafarlaust. Hagur allra barna er á ábyrgð samfélagsins alls.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×