Enski boltinn

Árni Þór markahæstur í fyrsta sigri Aue á árinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Árni Þór Sigtrygsson.
Árni Þór Sigtrygsson. mynd/aue
Íslendingaliðið Aue fagnaði sterkum sigri á heimavelli gegn HSC Coburg í kvöld, 22-19, í þýsku 2. deildinni í handbolta, en fyrir leikinn var Aue í níunda sæti en Coburg í þriðja.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af, en staðan í hálfleik var 8-8. Eins og lokatölurnar gefa til kynna var lítið skorað.

Í stöðunni 11-11 skoruðu lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar í Aue þrjú mörk í röð, tóku forystuna, 14-11, og héldu forskotinu til enda.

Árni Þór Sigtryggsson var markahæstur hjá Aue í kvöld með fimm mörk úr fimm skotum og Bjarki Már Gunnarsson stóð vaktina í vörninni. Sveinbjörn Pétursson varði átta skot í markinu og var með 31 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Þetta er fyrsti sigur Aue í deildinni á árinu og sá fyrsti síðan í byrjun desember á síðasta ári. Aue var búið að tapa þremur og gera eitt jafntefli í síðustu fjórum deildarleikjum.

Rúnar og lærisveinar hans eru nú með 27 stig í níunda sæti þýsku 2. deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×