Innlent

Vetrarveður á landinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er spáð éljum sunnan-og vestanlands í dag.
Það er spáð éljum sunnan-og vestanlands í dag. Vísir/Anton
Það verður suðlæg átt 8 til 15 metrar á sekúndu austanlands nú með morgninum en annars staðar hægari breytileg átt samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands. Él verða sunnan-og vestanlands en bjart með köflum um landið norðaustanvert. Frost verður 0 til 8 stig.

Undir kvöld snýst í norðlæga átt 8 til 15 metra á sekúndu og víða él eða snjókoma, en hægar vindur og úrkomulítið austast.

Á morgun verður suðlæg átt, 3 til 10 metrar á sekúndu, víða bjartviðri og talsvert frost á morgun en hvessir sunnan- og vestanlands annað kvöld með snjókomu.

 

Færð og aðstæður á vegum:



Snjóþekja er á Hellisheiði og í Þrengslum. Þungfært er á Lyngdalsheiði en þæfingsfærð og éljagangur á Mosfellsheiði. Hálka eða hálkublettir og éljagangur er nokkuð víða á Suðurlandi. Hálka er einnig á Reykjanesi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og sumstaðar snjókoma. Ófært er á  Bröttubrekku en snjóþekja á Holtavörðuheiði.

 

Hálka eða snjóþekja og éljagangur er á fletum leiðum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Gemlufallsheiði. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði en hálka og snjóþekja á Innstrandarvegi. Ófært er á Þröskuldum. Þæfingur er á Klettshálsi og Kleifaheiði en hálkublettir eru á Mikladal  og Hálfdán.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði og Grenivíkurvegi en unnið að mokstri.

Hálka og snjóþekja er á flestum leiðum á Austurlandi og víða éljagangur. Hálkublettir og éljagangur eru frá Reyðarfirði og að Höfn en þar fyrir vestan er snjóþekja og éljagangur á Skeiðarársandi en annars hálkublettir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×