Gatlin hljóp 100 metrana á 9,45 sekúndum en met Bolts, sem Jamaíkumaðurinn setti á HM í Berlín 2009, eru 9,58 sekúndur. Metið var þó langt frá því að vera tekið gilt hjá Gatlin því hann hljóp undan vindvél sem hjálpaði honum að slá þetta sjö ára gamla met.
Meðvindurinn mældist 8,9 metrar á sekúndu sem gera fimm vindstig samkvæmt gamla kerfinu, en á íslensku kallast það kaldi. Meðvindur má mest vera tveir metrar á sekúndu til að fá met tekin gild í frjálsíþróttum og var hann til samanburðar 0,9 metrar á sekúndu þegar Bolt settið heimsmetið í Berlín.
Justin Gatlin er líklega eini maðurinn sem getur komið í veg fyrir að Bolt vinni ekki 100 metra hlaupið þriðju Ólympíuleikana í röð í Ríó í sumar. Bandaríkjamaðurinn, sem hefur tvívegis farið í keppnisbann vegna lyfjamisnotkunar, hefur verið helsti keppinautur Bolts undanfarin misseri.
Hann varð í öðru sæti í 100 metra hlaupi á eftir Bolt á heimsmeistaramótinu í Peking síðasta sumar. Þar var Gatlin aðeins einum hundraðsta á eftir Jamaíkamanninum í mark.
Myndband af Gatlin að slá heimsmetið í 100 metra hlaupi á ólöglegan máta má sjá hér að neðan.