Körfubolti

Toronto vann uppgjörið gegn Cleveland | Öll úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kyle Lowry sækir hér inn að körfunni gegn Tristan Thompson.
Kyle Lowry sækir hér inn að körfunni gegn Tristan Thompson. Vísir/getty
Toronto Raptors vann mikilvægan sigur á Cleveland Cavaliers 99-97 á heimavelli í nótt í uppgjöri toppliðanna í austurdeild NBA-deildarinnar en þetta var tíundi sigur Toronto á heimavelli í röð.

Með sigrinum saxaði Toronto á forskot Cleveland á toppi austurdeildarinnar en Cleveland á eftir kvöldið tvo leiki á Toronto í öðru sæti.

Cleveland leiddi framan af og tók níu stiga forskot inn í fjórða leikhlutann en heimamenn settu í gír í þeim fjórða og náðu að stela sigrinum á lokametrunum.

Kyle Lowry átti einn besta leik sinn á ferlinum með 43 stig, þar af síðustu fjögur stig leiksins en LeBron James fékk færi til þess að stela sigrinum á lokasekúndunum en skot hans klikkaði.

Í Sacramento bar Chris Paul, leikstjórnandi Los Angeles Clippers, liðið á herðum sér í tíu stiga sigri á Sacramento Kings en Paul lauk leiknum með 40 stig, 13 stoðsendingar og átta fráköst.

Paul meiddist í leik liðsins gegn Denver Nuggets á dögunum en það sást ekki á honum í nótt og tryggði stórleikur hans Los Angeles Clippers sigurinn. Jeff Green lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Clippers í fjarveru Paul Pierce og lauk leik með 22 stig.

Þá tapaði Philadelphia 76ers sjöunda leiknum í röð og Los Angeles Lakers áttunda leiknum í röð en líklegt er að sigurleikirnir verði ekkert mikið fleiri hjá þessum liðum í vetur.

Stöðuna í deildinni má sjá hér en helstu tilþrif kvöldsins má sjá hér fyrir neðan.

Úrslit kvöldsins:

Indiana Pacers 94-95 Charlotte Hornets

Philadelphia 76ers 94-103 Washington Wizards

New York Knicks 105-98 Orlando Magic

Toronto Raptors 99-97 Cleveland Cavaliers

Atlanta Hawks 103-88 Chicago Bulls

Dallas Mavericks 122-116 Denver Nuggets (e. framlengingu)

Sacramento Kings 107-117 Los Angeles Clippers

Los Angeles Lakers 95-112 Memphis Grizzlies

Bestu tilþrif kvöldsins: Lowry var magnaður í Toronto: Paul bar lið Clippers á herðum sér í sigri á Sacramento Kings:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×