Körfubolti

Ótrúlegt en satt | Sjötta tap Golden State kom á móti Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry var ískaldur í kvöld.
Stephen Curry var ískaldur í kvöld. Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors töpuðu afar óvænt á móti Los Angeles Lakers í Staples Center í kvöld en Lakers er eitt lélegasta lið NBA-deildarinnar í vetur.

Golden State var búið að vinna 55 af 60 fyrstu leikjum sínum en Lakers hafði aðeins unnið samtals tólf leiki allt tímabilið. Það munaði 43 sigurleikjum á liðunum fyrir leikinn.

Samkvæmt tölfræðinni þá eru þetta óvæntustu úrslit NBA-sögunnar því aldrei hefur lið unnið leik í NBA þegar það hefur verið með svona miklu lægra sigurhlutfall.

Los Angeles Lakers vann leikinn á endanum með 17 stiga mun, 112-95, en Lakers-menn unnu fjórða leikhlutann 28-22.

Leikmenn Golden State náðu sér aldrei á strik í þessum leik en liðið hitti aðeins úr 4 af 30 þriggja stiga skotum sínum sem þýðir aðeins 13,3 prósent þriggja stiga skotnýtingu.

Golden State Warriors liðið hefur haldið frábærri einbeitingu í allan vetur en liðið mætti aldrei í leikinn í dag sem sést vel á lélegri hittni og mikið af töpuðum boltum.

Stephen Curry hefur verið sjóðheitur í undanförnum leikjum en hann klikkaði á 9 af 10 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Curry var samt stigahæstur hjá Golden State með 18 stig en Klay Thompson skoraði 15 stig.

Bakvarðarpar Los Angeles Lakers, Jordan Clarkson (25 stig) og D'Angelo Russell (21 sitg) hittu úr 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og brasilíski varaleikstjórnandinn Marcelo Huertas var með 10 stig og 9 stoðsendingar.

Kobe Bryant lét sér nægja að skora 12 stig á 24 mínútum í leiknum en Lakers vann með 16 stigum þegar hann var inná vellinum. Þetta var síðasti leikur Kobe á móti Golden State á ferlinum.

Golden State Warriors spilar næst á móti Orlando Magic annað kvöld og þar getur liðið sett nýtt met yfir flesta heimasigra í röð með því að vinna 45. leikinn í Oakland.

Kobe Bryant í baráttunni við Stephen Curry í leiknum.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×