Skoðun

Asnalegt að forseti sé kona

Ásta Kristjánsdóttir skrifar
Þegar ég bruna framhjá Bessastöðum með fjögurra ára son minn segi ég honum að forseti Íslands búi í einu af þessum húsum. Honum virðist vera nokk sama, og hefur sáralítinn áhuga á þessum samræðum. Til að kalla fram frekari viðbrögð hjá honum, bæti ég við að ég hafi sjálf fengið að fara með föður mínum, að heilsa upp á forsetann, bara átta ára gömul. „Þá var forsetinn kona“ segi ég stolt! Barnið skellir upp úr og segir: „asnalegt! kona forseti!“

 

Sonur minn tengir engan veginn við forsetann eins og ég gerði þegar ég var lítil. Tek síðan langa ræðu og útskýri fyrir drengnum að forsetinn geti alveg verið kona eins og karl. Honum virðist sama og hefur lítinn áhuga á fígúrunni  „Forseta Íslands.“ Líkt og margir landsmenn, sem væru alveg til í að leggja embættið niður.

Þessar hrókasamræður við son minn leiða hugann að því hversu mikil hvatning forsetinn var mér frá unga aldri. Hvernig Vigdís ruddi brautina fyrir mig og aðrar konur á þessum tímabili. Ef kona gat verið forseti þá gátu konur allt.

Þegar ég síðar ferðaðist um heiminn,  þá sagði ég öllum, sem vildu heyra um Ísland, frá Vigdísi, fyrsta kvenforseta jarðarinnar, mikið assskoti var ég stolt. Seinna þegar ég stofnaði fyrirtæki í Síberíu og Mumbai var mér oft ráðlagt að hörfa því ég væri útlensk kona, það yrði ekki tekið mark á mér. Þá hugsaði ég til Vigdísar. Ef hún gat orðið forseti hlyti ég að geta leyst mín verkefni á fyrrnefndum slóðum þrátt fyrir úrtölur og svo sannarlega gat ég það.

Við nánari umhugsun þá er mér bara alls ekki sama hver verður næsti forseti Íslands og mín vegna má leggja þetta embætti niður ef ekki fæst almennilegur kandídat í starfið. Ef við ætlum á annað borð að hafa forseta þá verður hann að ryðja brautina, standa fyrir eitthvað sem við Íslendingar getum verið stolt af. En það er alls ekki nóg að manneskjan sé klár og standi fyrir eitthvað heldur þarf hún líka að hafa karisma sem heillar alla heimsbyggðina og vekja athygli hér heima og erlendis.

Ég vil einstakling, sem hefur farið ótroðnar slóðir í lífinu, ekki puntidúkku. Einhvern sem hefur þurft að glíma við alls konar verkefni í lífinu og staðið uppi sem sigurvegari.

Það er bara einn einstaklingur, sem ég þekki sem er að hugsa sinn gang í þessum efnum sem hakar í öll þessi box og uppfyllir mínar kröfur. Það er Linda Pétursdóttir og hún fengi mitt atkvæði hiklaust.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×