Viðbragðsteymi vegna mansals hélt utan um meðferð systranna og ráðgjafi á vegum þess bauð þeim iðjuna til þess að þær hefðu eitthvað að fást við á meðan þær dvöldu í athvarfinu.

Fjárhagsaðstoð ríkisins dugði þeim ekki. Þær fengu 761 krónu á dag í aðstoð. „Eins og ég hef áður sagt þá líta þolendur mansals oft ekki á sig sem þolendur og telja sig ekki þurfa neina aðstoð. Það á að sjálfsögðu að fá sálfræðing til þess að ræða við þær strax og meta þeirra ástand og þörf á viðeigandi heilbrigðis- og sálfræðiaðstoð. Ekki bara segja við þær að hitt og þetta sé í boði,“ segir Kristrún og segir þörf á því að endurskoða úrræðin. „Það þarf að vera einhver einn sem sér algerlega um að halda utan um þær og þarfir þeirra og þjónustu á þessum mikilvæga tíma þegar verið er að reyna að ná þeim út úr þeim aðstæðum sem þær voru í. Það á bara að vera eitthvert fastmótað ferli, úrræði sem fara af stað og athvarf sem tekur við þar sem sérfræðingur í velferð mansalsfórnarlamba stendur vaktina og er þeim innan handar allan sólarhringinn,“ segir hún.