Innlent

Veðrið að ganga niður

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Búist er við stormi fram eftir morgni fyrir norðan.
Búist er við stormi fram eftir morgni fyrir norðan. Vísir/GVA
Vonskuveður er enn víðast hvar en í dag gengur sunnanáttin niður á landinu. Þó má búast við stormi fyrir norðan fram eftir morgni. Hættustig vegna snjóflóða er enn í gildi á Patreksfirði og óvissustig á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá varar Veðurstofan jafnframt við asahláku.

Léttskýjað verður norðaustanlands í dag en dálítil slydda á Suður- og Vesturlandi. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast austast. Á morgun er spáð mildri sunnanátt með lítilsháttar vætu á Suður- og Vesturlandi en áfram verður léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Útlit er fyrir svipað veður á miðvikudag en þurrt og víða bjart veður á fimmtudag.

Á vef Vegagerðarinnar segir að mikið vatn flæði yfir veg númer 823 við Hrafnagil í Eyjafirði og telst hann ekki fær minni fólksbifreiðum. Vegna veðurs er malbik farið að fléttast af veginum við Kolgrafabrú á Snæfellsnesi og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Hvasst er á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi en vegir eru greiðfærir. Þó eru hálkublettir í Svínadal og á fjallvegum á Vestfjörðum. Krakasnjór er á Fróðárheiði. Greiðfært er um Suður-, Suðaustur- og Austurland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×