Innlent

Vitlaust veður í Bolungarvík: Fiskihjallur fauk í heilu lagi og rúður sprungu í björgunarbílnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Bolungarvíkurhöfn í kvöld.
Frá Bolungarvíkurhöfn í kvöld. Vísir/Hafþór Gunnarsson
Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík hefur haft í nógu að snúast í kvöld vegna óveðursins. Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sem barst fjölmiðlum kom fram að töluverðar annir hefðu verið hjá björgunarsveitum í kvöld vegna veðurs en mest hefði þó mætt á björgunarsveitinni í Bolungarvík.

Hefur sveitin barist við lausar þakplötur og þakkanta og sinnt verkefnum þar sem skjólveggir hafa fokið og rúður brotnað. Þak fauk af fjárhúsi í Minnihlíð og fauk fiskihjallur í heilu lagi á sömu slóðum og annar byrjaður að fjúka.

Þá sprungu einnig rúður í björgunarsveitarbíl Ernis en samkvæmt upplýsingum þaðan meiddist enginn.

Hafþór Gunnarsson ljósmyndari tók meðfylgjandi myndir af Bolungarvíkurhöfn þar sem sjá má veðurofsann sem hefur ríkt á þeim slóðum í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×