Innlent

Sumardagurinn fyrsti verður kaldur en mildur

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Veðurfræðingur Veðurstofunnar lætur vera með að spá um sumarveðrið að sinni.
Veðurfræðingur Veðurstofunnar lætur vera með að spá um sumarveðrið að sinni. Vísir/Andri Marinó
Kalt verður á sumardaginn fyrsta en milt. Hiti verður 1 til 8 stig yfir daginn og hlýjast á Suðausturlandi. Nokkur vindur verður á öllu landinu og skýjað með köflum.

„Suðvestankaldi og skúrir eða él í dag, síðast vetrardag, jafn vel allhvasst við suðurströndina. Dregur úr vindi og éljum á morgun. Áfram fremur svalt í veðri, þó hiti nái líklega um 8 stigum syðst á landinu. Útlit er fyrir að vetur og sumar „frjósi saman“ víða um land, eins og það kallast þegar frost er að morgni sumardagsins fyrsta. Samkvæmt þjóðtrú boðar það gott sumar, en látum vera að spá í sumarveðrið að þessu sinni,“ segir í hugleiðingu veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar.

Í dag verður vindasamt, suðvestan 5-10 stig og skúrir eða él. Minnst rignir á Norðausturlandi. Eftir hádegi verður suðvestan og vestan 8-15 stig og hvassast við Suðurströndina. „Skúrir eða él, en úrkomulítið SA-til. Norðvestan 8-15 og úrkomuminna í kvöld, hvassast á annesjum A-til. Hæg vestanátt og stöku skúrir eða él á morgun. Hiti 0 til 8 stig að deginum, hlýjast SA-lands.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Vestlæg átt, 5-10 m/s og skýjað með köflum, en dálítil él N- og V-til. Hiti 1 til 8 stig að deginum, hlýjast SA-lands.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:

Vestan- og norðvestan 8-13 m/s, skýjað með köflum og lengst af úrkomulaust, en léttskýjað SA-til. Hiti víða 1 til 6 stig að deginum, en hlýrra syðst.

Á mánudag og þriðjudag:

Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og hiti 5 til 10 stig, en útlit fyrir norðanátt með smá éljum A-til og vægu frosti þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×