Erlent

Segir dagblað hagnast á þjóðarmorðum

Snærós Sindradóttir skrifar
Kim Kardashian ásamt eiginmanni sínum Kanye West og dóttur þeirra North West. Kim er af armenskum uppruna og ekki sátt við auglýsingar Tyrkja í bandarískum blöðum.
Kim Kardashian ásamt eiginmanni sínum Kanye West og dóttur þeirra North West. Kim er af armenskum uppruna og ekki sátt við auglýsingar Tyrkja í bandarískum blöðum. Vísir/Getty
„Það er eitt að skítasnepill græði á upplognum skandölum, en að virðuleg útgáfa eins og Wall Street Journal hagnist á þjóðarmorði er skammarlegt og óásættanlegt,“ segir Kim Kardashian West, raunveruleikaþáttarstjarna og athafnakona, í nýjum pistli á heimasíðu sinni.

Tilefnið er auglýsing sem birtist í Wall Street Journal þann 20. apríl síðastliðinn sem hafnar því að þjóðarmorð hafi verið framið á Armenum árið 1915. Þá var ein og hálf milljón manna drepin af Ottómanveldinu, sem í dag er Tyrkland. Auglýsingin virðist renna undan rifjum Tyrkja en stjórnvöld þar hafa aldrei opinberlega viðurkennt þjóðarmorðin.

Kim Kardashian er sjálf af armenskum ættum en fjölskylda hennar flúði Armeníu árið 1913, tveimur árum áður en voðaverkin áttu sér stað.

„Að birta afneitun landsins sem ber ábyrgð á þjóðarmorðunum er ekki að flytja ögrandi skoðanir heldur er verið að dreifa lygum. Það er siðferðislega óábyrgt og fyrst og fremst hættulegt. Hefði auglýsing sem hafnar helförinni eða tekur undir samsæriskenningar um ellefta september verið prentuð?“ spyr Kim í færslunni.

Talsmaður dagblaðsins hefur svarað og segir meðal annars: „Við samþykkjum mjög breiðan flokk auglýsinga, meðal annars þær með ögrandi útgangspunkt.“ 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 30. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×