Í umfjöllun BBC um þessa stöðu eru tilteknar nokkrar ástæður fyrir því hvers vegna Trump mælist nú hærri en Clinton í skoðanakönnun, en í fyrsta lagi er tiltekin sú staðreynd að repúblikanar virðast hafa sameinast um að styðja Trump. Þannig lítur út fyrir að almennir flokksmenn ætli að kjósa Trump þrátt fyrir að ýmsir framámenn í flokknum eins og Mitt Romney tali enn fyrir því að frekar eigi að kjósa óháðan frambjóðanda en Trump.
Samkvæmt könnun Washington Post ætla 85 prósent repúblikana að kjósa Trump og könnun New York Times sýnir svipaðar tölur. Þá eru ráðandi öfl í flokknum annað hvort farin að tala með því að kjósa Trump eða hætt að láta í sér heyra, en jafnvel John McCain, sem Trump hefur gert lítið úr, ætlar að kjósa hann.

Í öðru lagi er Bernie Sanders ákveðið vandamál fyrir Clinton. Hann er enn að keppa við hana í forvali demókrata þó hann eigi í raun litla möguleika á að hljóta útnefningu flokksins og er farinn að sýna klærnar. Þannig fór hann til dæmis fram á endurtalningu í forvalinu í Kentucky þar sem Hillary hafði nauman sigur í liðinni viku.
Vandamál Clinton felst þó í öðru, það er í því að stuðningsmenn Sanders virðast ekki ætla að fylkja sér á bak við Clinton. Í nýlegri skoðanakönnun sem You Gov gerði fyrir tímaritið Economist kom fram að 55 prósent stuðningsmanna Sanders ætli sér að kjósa Clinton, 15 prósent hyggjast kjósa Trump en 30 prósent segjast annað hvort ekki vita hvern þeir ætla að kjósa eða ætla að velja einhvern annan.
Það ætti því ekki að koma á óvart að 72 prósent þeirra sem styðja Sanders sjá Clinton sem óheiðarlega og segja hana ekki traustsins verða. Þá sýna aðrar kannanir jafnframt að stuðningsmenn Clinton eru líklegri til að styðja Sanders heldur en öfugt.

En það er fleira sem veldur Clinton vandræðum eins og til dæmis það hvernig mismunandi þjóðfélagshópar segjast ætla að kjósa. Þannig styðja konur og minnihlutahópar Clinton en það jafnast út því hvítir og karlmenn styðja frekar Trump. Samkvæmt könnun Washington Post styðja 57 prósent hvítra og 57 prósent karla Trump á meðan 69 prósent litaðra og 52 prósent kvenna kjósa Clinton.
Þá eru erfitt að segja til um hvernig þeir kjósendur sem hvorki telja sig sem repúblikana eða demókrata munu kjósa en ef marka má kannanir nú hallast þeir frekar að Trump heldur en Clinton. Þannig segjast 48 prósent þeirra frekar ætla að kjósa hann heldur en hana.
Í öllu þessu er þó vert að hafa í huga að enn er langt til þess að kosið verði til forseta í Bandaríkjunum en þær fara fram þriðjudaginn 8. nóvember næstkomandi. Þannig er á það bent í umfjöllun BBC að árið 1980 mældist Jimmy Carter með meira fylgi en Ronald Reagan snemma í skoðanakönnunum og það sama var uppi á teningum árið 2008 þegar John McCain atti kappi við Barack Obama.
Það er því langt því frá öruggt að Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna en það er sannarlega áhugavert hversu mikla keppni hann veitir Clinton miðað við það hversu margir afskrifuðu hann þegar hann bauð sig upphaflega fram í forvali repúblikana.