Aflandskrónufrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra var samþykkt á Alþingi í kvöld með 47 greiddum atkvæðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Píratar sátu hjá en þingmenn Bjartar framtíðar og Samfylkingar greiddu atkvæði með frumvarpinu.
Um er að ræða fyrra frumvarpið af tveimur vegna afnáms fjármagnshafta. Frumvarpið er sett fram til að leysa snjóhengjuvandann svokallaða.
Þingfundur var settur klukkan 20 í kvöld og var önnur umræða frumvarpsins það eina sem var á dagskrá þingsins. Bjarni lagði fram frumvarpið á föstudaginn og fór fyrsta umræða fram það kvöld.
Annarri umræðu lauk rétt eftir klukkan 23 en þá var þingfundi slitið svo hefja mætti þriðju umræðu en nauðsynlegt þótti að því yrði lokið fyrir opnun markaða á mánudag.
Enginn tók til máls í þriðju umræðu og var gengið til atkvæðagreiðslu þar sem frumvarpið var samþykkt með 47 atkvæðum en líkt og fyrr segir sátu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Pírata hjá.
Aflandskrónufrumvarpið samþykkt á Alþingi

Tengdar fréttir

Leggur fram frumvarp um útboð aflandskróna
Boðað hefur verið til fundar á Alþingi í kvöld en á fundinum verður lagt fram frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um útboð aflandskróna.

Vilja halda gjaldeyrisútboð í næsta mánuði
Fjármálaráðherra mælti nú síðdegis fyrir frumvarpi á Alþingi sem markar næstu skref við losun fjármagnshafta á Íslandi.

Bandarískir sjóðir telja frumvarp um aflandskrónur brjóta gegn eignarétti
Tveir bandarískir fjárfestingarsjóðir, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital, telja að frumvarp ríkisstjórnarinnar um aflandskrónur brjóti gegn eignarétti þeirra með bótaskyldum hætti.