Innlent

Vél Icelandair þurfti að hætta við lendingu í Keflavík því önnur vél var á brautinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir enga hættu hafa skapast við Keflavíkurflugvöll í nótt.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir enga hættu hafa skapast við Keflavíkurflugvöll í nótt. Vísir/Vilhelm
Vél Icelandair á leið frá Frankfurt þurfti að hætta við lendingu á Keflavíkurflugvelli í nótt því önnur vél reyndist vera á flugbrautinni. Svartaþoka var við Keflavíkurflugvöll á þessum tíma en vélin sem reyndist vera fyrir á flugbrautinni hafði misst af beygju út af flugbrautinni inn á akstursbraut. Vél Icelandair var á leið inn til lendingar þegar það varð ljóst og þurfti því að hætta skyndilega við og hækka flugið aftur.

Flugstjórinn tilkynnti svo farþegum að önnur vél hafi verið fyrir á flugbrautinni og var því flogið til Reykjavíkur þar sem lent var á Reykjavíkurflugvelli. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi hjá Isavia, segir enga hættu hafa skapast vegna þessa. Þegar mikil þoka er við Keflavíkurflugvöll þá sé unni eftir verklagi í samræmi við lélegt skyggni. Er þá lengra bil á milli véla til að vera með borð fyrir báru.

„Og bara ein hreyfing í gangi í einu og öryggið algjörlega í fyrirrúmi,“ segir Guðni. Hann segir vél Icelandair hafa haft nægan tíma til að hækka flugið á ný þegar ljóst var að hin vélin hafði misst af beygjunni út af flugbrautinni. „Það var bara svo lítið skyggni að flugstjórinn missti af beygjunni út af flugbrautinni á akstursbrautina vegna þoku. Það er blindljósabúnaður og mjög fullkominn flugleiðsögubúnaður á Keflavíkurflugvelli og alls engin hætta á ferðum.“

Tvær vélar þurftu að lenda á Reykjavíkurflugvelli og ein á Egilsstaðaflugvelli vegna þoku við Keflavíkurflugvöll í nótt. „Það var einfaldlega of lítið skyggni,“ segir Guðni.

Aðspurður hvort þessi uppákoma, að vél hafi misst af beygju inn á akstursbraut, tengjast á einhvern hátt verkfalli flugumferðarstjóra svarar hann því neitandi. Skyggni hafi einfaldlega verið lítið og það hafi ekki haft neitt með flugumferðarstjórana að gera að að flugstjórinn missti af beygjunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×