Lífið

Geimverurnar lentu og tóku yfir Ísland

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Ninja talaði mikið við salinn og kallaði ótt og títt; "Reyjavíck" með sterkum suðurafrískum hreim.
Ninja talaði mikið við salinn og kallaði ótt og títt; "Reyjavíck" með sterkum suðurafrískum hreim. Vísir/Hanna
Það var nær ójarðnesk stemning á frábærum tónleikum Die Antwoord á Secret Solstice í gær. Sú súpa tónlistaráhrifa sem einkennir tónlist suður-afrísku sveitarinnar er slík að ómögulegt er að reyna útskýra fyrir öðrum en þeim sem til þekkja hvers kyns hún er.

Segjum bara að tónlistin sé eins og ef sóðalegustu geimverur vetrarbrautarinnar hefðu rekist á útvarpsbylgjur í geimnum frá tíunda áratugi síðustu aldar, heyrt þar í sveitum á borð við The Prodigy og söng/rapparanum M.I.A. og ákveðið að gera árás á Jörðina með hljóðbylgjum.

Skvett svo þar inn í hörðustu töktum og riffum úr rokkinu, smá reggí, smá afríska takta og svo spreyjað andrúmsloftið með nægilega miklu adrenalíni til þess að tryggja að enginn gæti mögulega farið óhreyfður frá þeirri upplifun að sjá þau á sviði. Hægt og bítandi munu þau svo taka yfir heiminn.

Yolandi og Ninja eru hjón og eiga barn saman. Þess á milli eru þau svona á sviði.Vísir/Hanna
Eldri borgarar, drullið ykkur heim!

Biðin fyrir tónleikana var löng og eftirvæntingin slík að ef rótari steig á svið til þess að laga eitthvað til fögnuðu tónleikagestir eins og Jesús hefði loksins ákveðið að standa við loforðið um upprisuna.

Sveitin byrjaði á hinu eitursvala Fok Julie Naaiers sem var eitt af fáum lögum á prógramminu sem voru undir 120 slögum á mínútu. Ninja og Yolandi Visser stigu á svið í þykkum appelsínugulum hettupeysum svo í fyrstu voru þau aðeins auðþekkjanleg á röddum sínum.

Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar þau rifu sig úr þeim og renndu beint í lögin Cookie Thumper og Fatty Fatty Boom Boom. Þó ekki áður en þau sáu ástæðu til þess að gagnrýna harðlega „eldri borgara sætin“ eins og þau kölluðu stúkuna. Þeirra fyrstu skilaboð til fólksins sem sat þar var langatöng upp í loft og orðin; „drullið ykkur heim!“ Þetta hafði tiláætluð áhrif og blaðamaður Vísis og aðrir sem þar sátu stóðu upp í skömm sinni og fóru að dansa.

Tilfinningasemi með buxurnar á hælunum

Ninja var duglegur að skutla sér ofan á áhorfendaskarann á meðan Yolandi lét sér nægja að dansa um sviðið og sviðsmyndina og gera sitt besta til að sprengja glerið á öllum þeim farsímum sem voru á lofti með einstakri hátíðnirödd sinni.

Báðir rapparar eru skemmtikraftar af guðs náð og þó svo að textainnihaldið sé kannski ekki upp á marga fiska þá er flutningur þeirra það göldróttur að það er ómögulegt að upplifa án þess að heillast með.

Die Antwoord tekur sig svo sannarlega ekki mjög alvarlega. Það sýndi sig best þegar Ninja stóð á nærbuxunum með buxurnar á hælunum að reyna sitt besta að þagga niður í tónleikagestum til þess að fá rými til að halda tilfinningaræðu um komu sína til Íslands.

„Ég er búinn að vera bíða eftir því alla ævi að komast hingað... haldiði kjafti,“ sagði Ninja við mikinn fögnuð áhorfenda áður en hann brast í væminn söng um sitt innra ástand.

Fok Jor Rules

Þær fáu konur sem áttu eftir að standa upp í stúkunni gerði það svo þegar keyrt var í lagið Ugly Boy. Eftir það keyrði sveitin úr einum slagara í annan. 

Happy Go Sucky Fucky náði sérstökum hæðum þegar Yolandi stýrði Höllinni í fjöldasöng sem minnti helst á tónleika Rage Against the Machine í Kaplakrika á síðustu höld; „Fok Jor Rules“ söng allur salurinn sem hafði skyndilega tileinkað sér suðurafrískan hreim með tilheyrandi rúllandi erri.

Eftir það keyrði sveitin í Pitbull Terrier, I Fink Your Freaky og Baby‘s on Fire. Yolandi, Ninja, plötusnúðurinn Hi-Tek og dansararnir tveir komu sér svo fyrir fremst á sviðinu og krupu svo í kyrrstöðu með hnefann í gólfið á meðan lagið Never Le Nkemise hljómaði undir.

Í uppklappinu stöppuðu fimm þúsund manns það hart í gólfið að „eldri borgara svæðið“ titraði eins og í jarðskjálfta. Sveitin kom þá aftur á svið og endaði á elsta slagara sínum Enter the Ninja frá árinu 2010.

Á leiðinni út mátti heyra nokkra af helstu tónlistarspekingum landsins velta því fyrir sér hvort þeir hefðu nokkrum sinnum séð aðra eins veislu í Laugardalshöll. Í framtíðinni, þegar Die Antwoord stýra hugsunargangi allra lífvera á jörðinni úr móðurskipinu, geta þeir heppnu sagt barnabörnum sínum að þeir hafi orðið vitni að því þegar geimverurnar lögðu undir sig Ísland.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×