Margir Íslendingar fengu eflaust smá ónotatilfinningu þegar Frakkarnir tóku upp á því að fagna eins og íslenska landsliðið eftir leikinn í gær.
Eftir sigurinn á Þjóðverjum stilltu frönsku landsliðsmennirnir sér upp og tóku hið fræga Víkingaklapp sem var einkennisfögnuður íslenska landsliðsins á Evrópumótinu.
Íslenska landsliðið og íslensku stuðningsmennirnir hafa gert þetta klapp heimsfrægt og það á örugglega sinn þátt í að vekja enn meiri athygli á frábærum árangri íslenska liðsins á Evrópumótinu í ár.
Mega fá fagnið lánað
Frakkarnir slógu íslensku strákanna vissulega út úr átta liða úrslitunum en litu kannski svo á að þeir hafi unnið sér með því rétt á því að fagna eins og íslenska liðið það sem eftir var mótsins.
Alfreð Finnbogason skýtur aðeins á fögnuð Frakkana á Twitter-síðu sinni.
„Það er ekki fallegt að stela ... en ef þið vinnið Evrópumótið þá megið þið fá okkar fögnuð að láni," skrifaði Alfreð og endaði á glottandi broskarli.
Alfreð er örugglega ekki eini Íslendingurinn sem vill sjá Frakka vinna mótið. Það myndi ekki aðeins vera smá sárabót fyrir tap íslensku strákanna í átta liða úrslitunum heldur myndu Frakkar um leið koma í veg fyrir að einn af fáum óvinum íslenska liðsins á EM í Frakklandi, Cristiano Ronaldo, yrði Evrópumeistari.
It's not nice to steal.... But if you win @UEFAEURO you can borrow our celebration https://t.co/rLVZb6HrsD
— Alfreð Finnbogason (@A_Finnbogason) July 8, 2016