Þrátt fyrir gagnrýnina hafa Melania og upplýsingafulltrúar Donald Trump enn ekki veitt fjölmiðlum upplýsingar um hvers lags landvistarleyfi hún hafi fengið á sínum tíma. Málið gæti orðið hið vandræðalegasta fyrir Trump þar sem eitt af stóru málunum í kosningabaráttu hans er að herða reglur hvað varðar innflytjendur til Bandaríkjanna.

Málið kom upp eftir að blaðamaður BBC í Washington skrifaði grein þar sem því var kastað fram að Melania hafi ekki haft atvinnuleyfi þegar hún hóf módelstörf í Bandaríkjunum á sínum tíma. Hún segist hafa byrjað að starfa þar árið 1996 en blaðamaður gróf upp nektarmyndir af henni sem eiga að hafa verið teknar árinu áður. Melania fullyrðir að myndirnar hafi verið teknar fyrir franskt blað en svo birtar í bandarísku tímariti.
Melania Trump, sem fæddist Melanija Knavs en breytti því síðar í Melania Knauss, fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 2006. Hún er 46 ára gömul og hefur átt í ástarsambandi við Donald frá árinu 1998. Þau giftu sig árið 2005.