Skoðun

Tryggjum áfram styrka hagstjórn

Helga Ingólfsdóttir skrifar
Ágæti kjósandi.

Framundan er prófkjör þar sem fram fer val fulltrúa á lista Sjálfstæðisflokkins fyrir komandi alþingiskosningar. Ég hvet þig til þess að taka þátt í prófkjörinu og nýta þannig rétt þinn til þess að velja þá fulltrúa sem þú treystir best til að axla þá ábyrgð sem því fylgir að vera kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga. Að mínu mati er mikilvægasta verkefnið á komandi misserum að tryggja áframhaldandi styrka hagstjórn þar sem áhersla er lögð á jöfnuð og réttlæti með langtímahagsmuni hins almenna launþega í fyrirrúmi. Ég vil beita mér fyrir því að lífskjör á Íslandi verði betri með aukinni framleiðni, styttri vinnutíma og hærri meðallaunum. Síðustu þrú ár hef ég verið stjórnarmaður í VR, einu stærsta stéttarfélagi landsins, og er þar formaður jafnréttisnefndar félagsins. Kjaramál eru mér því hugleikin en sú láglaunastefna sem rekin er á Íslandi hugnast mér ekki.

Ég vil sjá launastefnu sem drifin er áfram af arðsemi starfsgreina með það meginmarkmið að á Íslandi verði meðallaun hærri og dugi vel til framfærslu. Ennfremur vil ég beita mér fyrir því að jafnlaunastaðall verði innleiddur í opinberum rekstri til þess að útrýma kynbundnum launamun hjá opinberum stofnunum. Ég tel að reynsla mín af sveitarstjórnarmálum geti nýst vel á Alþingi. Undanfarin 6 ár hef ég verið bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og hef í störfum mínum öðlast víðtæka þekkingu á fjölmörgum málaflokkum sem snúa að hagsmunum íbúa og umhverfis. Ég er nú formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs, varaformaður í Fjölskylduráði, formaður verkefnisstjórnar um byggingu hjúkrunarheimils og formaður starfshóps um uppbyggingu á Ásvöllum.

Ég gef kost á mér í 2.–4. sæti í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 10. september og óska eftir stuðningi þínum til góðra verka.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×