Skoðun

Nýsköpun: Þar sem menntun og atvinnulíf mætast

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir skrifar
Ísland þarf að auka verðmætasköpun til útflutnings verulega svo hægt verði að standa undir þeim skuldbindingum sem felast í því að borga af lánum, tryggja lífsgæði og ekki síst byggja upp innviði. Ólíkt mörgum öðrum þjóðum eigum við ríkulegar auðlindir – á landi og sjó. Á meðan auðlindir okkar eru góður grunnur til að byggja á þá er ekki hægt að auka verðmætasköpun með því einu að ganga alltaf lengra í nýtingu þeirra. Ný verðmæti verða að byggja á hugviti.

Nýsköpun er grunnurinn að samkeppnishæfni þjóða og þar með bættum lífskjörum. Nýsköpun verður bæði til með sköpun nýrra atvinnugreina, eins og tölvuleikjaiðnaðar, en líka með framþróun í undirstöðuatvinnugreinum á borð við sjávarútveg, landbúnað, orkuiðnað og ferðaþjónustu. Nýsköpun verður til þar sem menntun og atvinnulíf mætast - hjá nemendum sem fá tækifæri til að vinna verkefni með rótgrónum fyrirtækjum og sjá þar möguleika til að gera hluti með nýjum hætti. Nýsköpun verður ekki síður til hjá einstaklingum sem sjá möguleika á að skapa nýja þjónustu, vörur eða ný fyrirtæki, sem síðan þróast jafnvel út í nýjar atvinnugreinar sem skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið. Þetta örvar hagvöxt og skapar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg störf, og stundum meira að segja nýjar atvinnugreinar, sem verða að undirstöðuatvinnugreinum í samfélaginu – eins og sjá má á tækni- og upplýsingargeiranum á Íslandi.

Samfélag nýsköpunar er samfélag sem ungt fólk kýs að búa í. Það þarf að efla byggðir landsins, en til þess þarf að byggja umhverfi þar sem fjölbreyttar atvinnugreinar geta náð fótfestu og fyrirtæki blómstrað óháð staðsetningu. Framtíðin er núna og við verðum að setja í forgang að styrkja fjármögnunarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og gera þeim þannig kleift að komast almennilega á legg. Um leið verðum við að einfalda starfsumhverfi nýrra fyrirtækja og hvetja þannig fleiri til þess að láta reyna á hugmyndir sínar. Slíkar breytingar þurfa ekki og eiga ekki að taka fleiri ár.

Mannauðurinn sem skapar ný tækifæri og ný fyrirtæki verður ekki til án öflugs menntakerfis. Börn eru fjöregg þjóðarinnar og okkur ber að gefa þeim tækifæri til að þroskast sem einstaklingar og þjóðfélagsþegnar. Undirstaða þess er góð menntun, frá leikskóla til háskóla. 

Það er því miður staðreynd að háskólar á Íslandi eru svo undirfjármagnaðir að fyrir hrun náðu þeir rétt um 56% af því fjárframlagi sem fylgdu meðalháskólanema á Norðurlöndum. Frá hruni hefur þetta framlag verið skorið enn frekar niður. Í kjölfar kreppunnar ráðlögðu finnskir og sænskir sérfræðingar, sem höfðu gengið í gegnum sambærilegar hremmingar, Íslendingum að standa vörð um framlög til menntunar. Þar var sérstaklega horft til háskólamenntunar, enda er menntaður mannauður grunnurinn að hagvexti. En við þurfum líka að skoða aðra hluta menntakerfisins. Fjársveltur framhaldsskóli mun til framtíðar ekki skila af sér útskrifuðum inn í háskóla og atvinnulíf með þá þekkingu og hæfni sem núverandi störf og störf til framtíðar þarfnast.

Öflugt menntakerfi og nýsköpun sem byggir á hugviti haldast í hendur. Við þurfum meiri fjárfestingu í menntakerfinu – frá leikskólum og uppúr. Þannig byggjum við upp atvinnugreinar sem grundvallast á hugviti, og með því fjölbreytt, skapandi og sjálfbært atvinnulíf til framtíðar – samkeppnishæft samfélag sem nýjar kynslóðir vilja taka þátt í að byggja upp.

Undir grein:

Höfundur býður sig fram í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fer fram dagana 8.-10. september.




Skoðun

Sjá meira


×