Viðskipti innlent

Hlutabréf í Icelandair rjúka upp

Sæunn Gísladóttir skrifar
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,02 prósent í dag.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,02 prósent í dag. Vísir
Frá opnun markaða hefur gengi hlutabréfa í Icelandair Group rokið upp um 4,07 prósent í 429 milljón króna viðskiptum. Líklega má rekja hækkunina til þess að félagið tilkynnti í morgun um þrettán prósent umfangsmeiri flugáætlun á næsta ári.

Í tilkynningu frá félaginu kom fram að áætlanir geri ráð fyrir 4,2 milljónum farþega árið 2017 og að þrátt fyrir lækkaða afkomuspá í júlí sé gert ráð fyrir að árið 2016 verði eitt besta rekstrarár í sögu félagsins.

Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hríðféllu fyrir helgi. Bréfin lækkuðu um 4,89 prósent  á föstudag. Meðal ástæða þess var almenn lækkun á markaði vegna fregna af hækkandi olíuverði og hærri verðbólgu. En einnig hafði það áhrif á gengi bréfa í Icelandair Group að stjórnarmaður félagsins, Katrín Olga Jóhannesdóttir, seldi 400 þúsund hluti í félaginu á síðasta degi viðskipta þriðja ársfjórðungs 2016.

Almennt hefur hlutabréfamarkaðurinn tekið kipp upp á við í dag, en úrvalsvísitalan hefur hækkað um rúmlega 2 prósent í morgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×