Innlent

Viðreisn vill ekki taka þátt í „gamaldags dilkadrætti“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá stofnfundi Viðreisnar.
Frá stofnfundi Viðreisnar.
Viðreisn hafnar því sem flokkurinn kallar „gamaldags dilkadrætti“ og segist tilbúinn til að vinna með öllum flokkum að mögulegri stjórnarmyndun í kjölfar kosninga. Í tilkynningu frá Viðreisn segir að flokkurinn vilji að kjósendur eigi kost á frjálslyndri stjórn „sem getur dregið fram það besta á andstæðum vængjum stjórnmálanna“.

Í tilkynningunni segir að vangaveltur um mögulegt stjórnarmynstur hafi verið fyrirferðarmiklar á síðustu dögum og útgangspunkturinn hafi gjarnan verið sá að stilla flokkum upp í andstæðar fylkingar.

„Viðreisn hefur ekki viljað taka þátt í slíkum gamaldags dilkadrætti, en leggur áherslu á að ná samstöðu um málefni til þess að endurbyggja traust almennings á stjórnmálum. Í því ljósi er rétt að árétta að Viðreisn er tilbúin að vinna með öllum flokkum, allt frá Sjálfstæðisflokki til Vinstri grænna og þeim flokkum þar á milli sem vilja vinna að frjálslyndri stefnu og pólitísku jafnvæg,“segir í tilkynningunni.

Enn fremur segir að rétt sé að kjósendur fái tækifæri til þess að meta málefnalega afstöðu allra flokka og ákvarða vægi ólíkra sjónarmiða í stjórn landsins.

„Við teljum að íslenskt samfélag þarfnist stöðugleika á sviði stjórnmálanna, á vinnumarkaði og í efnahagsmálum. Það tryggir þjóðin best með því að skipta ekki um póla á fjögra ára fresti og kjósa öfganna milli heldur að kjósa það afl sem stendur fyrir raunhæfar langtímalausnir en ekki kollsteypustjórnmál. Við viljum byggja á því sem vel hefur verið gert en þorum að horfast í augu við áskoranir nýrra tíma og viljum leiða mikilvægar breytingar á íslensku samfélagi.“

Viðreisn hefur því boðað til blaðamannafundar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×