Ólympíumeistarar Dana unnu níu marka sigur, 29-20, á Hollendingum í undankeppni EM 2018 í handbolta í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Dana eftir að þeir urðu Ólympíumeistarar í ágúst.
Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar voru allan tímann með yfirhöndina í leiknum en náðu ekki að slíta sig frá Hollendingum fyrr en í seinni hálfleik.
Staðan var 15-12 í hálfleik en í seinni hálfleiknum gaf danska liðið í og vann á endanum níu marka sigur, 29-20.
Mikkel Hansen var markahæstur hjá Dönum með átta mörk. Kasper Söndergaard kom næstur með fimm mörk.
Danir eru með tvö stig í riðli 1, líkt og Ungverjar sem báru sigurorð af Lettum í gær.
Þrír aðrir leikir fóru fram í undankeppni EM 2018 í kvöld.
Kristján Andrésson stýrði Svíum í fyrsta sinn þegar liðið vann 15 marka sigur, 36-21, Svartfellingum í riðli 6.
Frakkar rúlluðu yfir Litháa, 37-20, í riðli 7.
Þá unnu Serbar góðan útisigur á Pólverjum, 32-37, í riðli 2.

