Viðskipti innlent

TVG-Zimsen opnar skrifstofu á Schiphol flugvelli

Sæunn Gísladóttir skrifar
Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.
Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen. Mynd/TVG-Zimsen
TVG-Zimsen hefur opnað skrifstofu á Schiphol flugvellinum í Amsterdam. Með þessari nýju skrifstofu vill TVG-Zimsen nýta mikilvægi og staðsetningu Schiphol flugvallar og þau miklu tækifæri sem felast í  alþjóðlegum tengingum Schiphol  við ört vaxandi leiðakerfi íslensku flugfélaganna.

,,Það er mjög mikilvægt fyrir ört vaxandi fyrirtæki eins og TVG-Zimsen að vera staðsett á Schiphol með eigin starfsemi. Flugvöllurinn er afar mikilvægur og staðsetning hans því þýðingarmikil fyrir alþjóðlegar flugtengingar sem bjóða upp á mikla möguleika fyrir okkur. Þá hafa íslensku flugvélögin styrkt stöðu sína mikið á Schiphol flugvelli sem nú spilar enn stærra hlutverk í leiðakerfi þeirra. Flugfélögin hafa bæði aukið tíðni flugferða til og frá Schiphol, sem og aukið flutningsgetu til muna með breiðþotum sínum, Icelandair með Boeing 767 og Wow Air með Airbus 330 vélar. Ný staðsetning okkar á Schiphol mun því skila enn öflugri heildarlausnum og þjónustu fyrir okkar viðskiptavini," segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen í tilkynningu.

,,Samhliða skrifstofu TVG-Zimsen á Schiphol rekur fyrirtækið einnig skrifstofu í Rotterdam. Við erum því með öflugt flutninganet, flugleiðina í gegnum Amsterdam og sjóleiðina í gegnum Rotterdam," segir Björn ennfremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×