Fótbolti

Asprilla: James er með sömu stæla og Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James og Ronaldo. Asprilla er ekki hrifinn af vinskap þeirra.
James og Ronaldo. Asprilla er ekki hrifinn af vinskap þeirra. vísir/getty
Faustino Asprilla, fyrrverandi landsliðsmaður Kólumbíu og leikmaður Newcastle United og fleiri liða, segir að Cristiano Ronaldo hafi slæm áhrif á James Rodríguez, samherja sinn hjá Real Madrid og fyrirliða kólumbíska landsliðsins.

„James er vinur minn og mér þykir mjög vænt um hann,“ sagði Asprilla um landa sinn eftir 3-0 tap Kólumbíu fyrir Argentínu í undankeppni HM 2018 fyrr í vikunni.

Asprilla lék með Newcastle á árunum 1996-98.vísir/getty
„Ég sé að vinskapur hans og Cristianos Ronaldo hefur slæm áhrif á hann. Núna er hann með sama látbragð og Ronaldo þegar hann fær ekki boltann. Ronaldo tjáir óánægju sína í hvert skipti sem hann fær ekki boltann og James er byrjaður að apa það eftir honum.“

Asprilla segir að James verði að hætta þessum stælum og einbeita sér að því að spila fyrir liðið og hjálpa yngri leikmönnunum í kólumbíska liðinu.

James hefur átt erfitt uppdráttar hjá Real Madrid eftir að Zinedine Zidane tók við þjálfun liðsins. Kólumbíumaðurinn á ekki fast sæti í liði Evrópumeistaranna og hefur aðeins byrjað tvo leiki í spænsku úrvalsdeildinni í vetur.

Real Madrid situr á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig eftir 11 umferðir. Liðið sækir granna sína í Atlético Madrid heim á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×